Snúa heim frá Íslandi 24 milljón krónum ríkari

Verðlaunabikar VALORANT Champions Tour 2021: Stage 2 Masters - Reykjavík …
Verðlaunabikar VALORANT Champions Tour 2021: Stage 2 Masters - Reykjavík sem keppst var um. Ljósmynd/Ariel West

Norðurameríska liðið Sentinels er nú heimsmeistari í tölvuleiknum Valorant eftir að hafa unnið úrslitaviðureign sína á mótinu Masters Reykjavík sem lauk í Laugardalshöll í gær. Fer liðið því heim með fyrsta alþjóðlega bikarinn í leiknum ásamt rúmlega 24 milljónum króna í verðlaunafé.

Í úrslitum mættu þeir evrópska liðinu Fnatic en þrátt fyrir gott gengi Fnatic á mótinu var Sentinels spáð nokkuð öruggum sigri. Úr þeirri spá rættist og urðu Fnatic að sætta sig við annað sætið og rétt rúmlega 12 milljónir króna í verðlaunafé.

Fóru ósigraðir inn í úrslitin

Leið Sentinels að heimsmeistaratitlinum var nokkuð átakalaus en þegar komið var að úrslitaleiknum höfðu þeir ekki tapað einum einasta leik á mótinu. Sömuleiðis höfðu þeir farið nokkuð létt í gegnum Norður-Ameríku undankeppnina fyrir mótið en þar töpuðu þeir einungis þremur leikjum en unnu níu, og unnu allar fjórar viðureignir sínar.

Raunar höfðu Sentinels unnið seinustu þrjú stórmót á Norður-Ameríku svæðinu nokkuð örugglega með 3-0 sigrum í úrslitaviðureignum. Leita þarf aftur til febrúar til að finna tap á stórmóti þegar þeir töpuðu 0-3 fyrir Team Envy. Það var því kannski ekki skrítið að þeim var spáð sigri í Masters Reykjavík áður en mótið hófst.

Aftast í hugum einhverra var þó kannski frammistaða Sentinels í Challengers 1 mótinu sem átti sér stað í mars. Það var að vísu undankeppni en ekki stórmót en þar töpuðu Sentinels samt sem áður 0-2 gegn nokkuð óþekkta liðinu Built By Gamers. Það var því alveg inni í myndinni að eitthvað óvænt gæti átt sér stað á mótinu.

Sigruðu með lánsmanni

Sigurlið Sentinel samanstóð af eftirfarandi leikmönnum:
Shahzeb „ShahZaM“ Khan
Hunter „SicK“ Mims
Jared „zombs“ Gitlin
Michael „dapr“ Gulino
Tyson „TenZ“ Ngo

ShahZaM er fyrirliði liðsins og virðist sjá um það að mestu eða öllu leiti, en ólíkt mörgum rafíþróttaliðum hefur Sentinels ekki þjálfara á skrá hjá sér. Einnig er merkilegt að draga fram að TenZ er að spila fyrir Sentinels á láni frá öðru norðuramerísku liði, Cloud9 Blue, eftir að leikmaður Sentinels, Jay „sinatraa“ Won, hlaut tímabundið bann frá því að taka þátt í mótum. Bannið hlaut hann vegna ósamvinnuþýði gagnvart Riot Games, mótshöldurum og framleiðendum leiksins Valorant, þegar verið var að rannsaka mál hans eftir að fyrrverandi kærasta hans ásakaði hann um kynferðislegt ofbeldi í sambandi þeirra.

Áður en Riot Games höfðu bannað hann höfðu Sentinels sjálfir hins vegar sett hann á bekkinn. Í samhengi sem þessu var Sentinels að missa einn af sínum bestu og frægustu leikmönnum korter í þetta fyrsta alþjóðlega stórmót sem þeir höfðu hugsað sér að komast í og voru því góð ráð dýr. Samningur náðist þó milli Sentinels og Cloud9 um að fá TenZ að láni úr Cloud9 Blue, fyrst fyrir undankeppnina og svo fyrir mótið, en TenZ er af mörgum talinn besti Valorant spilari heims og þóttu þetta því stórar fréttir.

Alls ekki hægt að afskrifa Fnatic

Þrátt fyrir að hafa tapað annarri viðureign sinni á mótinu gegn Sentinels 0-2 var ekki að sjá vott af stressi hjá Fnatic mönnum þegar þeir löbbuðu inn á svið í gær. Fyrir utan tap sitt gegn Sentinels höfðu þeir einungis tapað einum leik, og það í undanúrslitum gegn NUTURN Gaming, og voru þeir því líka á ákveðinni sigurgöngu í gegnum mótið með 10 sigra í 13 leikjum.

Fnatic er stórt og frægt rafíþróttafélag sem keppir í flestum, ef ekki öllum, helstu rafíþróttum heims þessar mundir. Þeir áttu þó ekki lið í Valorant fyrr en í febrúar á þessu ári þegar þeir skráðu Valorant liðið SUMN FC til að spila undir nafni félagsins. SUMN FC var myndað í ágúst í fyrra og hafa almennt verið að skila góðum niðurstöðum í flestum evrópsku keppnum síðastliðið árið.

Lið Fnatic var því í raun eldra lið með ágætis orðspor þegar þeir komu inn í mótið. Þeir lentu t.d. í fyrsta sæti á evrópska stórmótinu sem var á undan undankeppninni fyrir Masters Reykjavík, og í öðru sæti í undankeppninni sjálfri. Sömuleiðis var tap þeirra gegn Sentinels fyrr á mótinu nokkuð jöfn viðureign, og mátti því alls ekki afskrifa þá svo auðveldlega.

Listi yfir leikmenn og þjálfara SUMN FC.
Listi yfir leikmenn og þjálfara SUMN FC. Skjáskot/Liquipedia

Kjarninn spilað lengi saman

Lið Fnatic samanstendur af eftirfarandi leikmönnum:
Jake „Boaster“ Howlett
Domagoj „Doma“ Fancev
James „Mistic“ Orfila
Nikita „Derke“ Sirmitev
Martin „Magnum“ Peňkov
Og þjálfaranum Jacob „mini“ Harris

Af liði Fnatic eru enn fjórir úr SUMN FC sem mynda ákveðinn kjarna: fyrirliðinn Boaster, Doma, Mistic og þjálfarinn mini. Tveir af fyrrum leikmönnum SUMN FC voru hinsvegar látnir fara og Derke og Magnum komu inn þeirra í stað.

Yfirmenn hjá Fnatic eru eflaust ánægðir með árangur liðsins og þá kannski sérstaklega hversu vel Derke og Magnum féllu inn í liðið, en Magnum hefur skilað sérstaklega stöðugri frammistöðu gegnum mótið á meðan Derke hefur verið maður dagsins þrjá af sex dögum mótsins. Líklegt er þó að gamli kjarninn sé það sem að fleytti þeim alla leið upp í úrslit á mótinu.

Viðureignin hófst á veikleika Fnatic

Ólíkt fyrri viðureignum á mótinu var spilað upp í þrjá leiki í úrslitaviðureigninni í stað tveggja. M.ö.o. þá þurfti annað hvort liðið að vinna þrjú borð til að sigra viðureignina og yrði því hugsanlega spilað í öllum fimm borðum sem í boði voru. Liðin bönnuðu því ekki borð í þessari viðureign heldur skiptust á að velja hvaða borð þau vildu spila fyrst. Í fimm af sex viðureignum sínum á mótinu hafði Fnatic bannað borðið Split og kom því lítið á óvart að það var fyrsta val Sentinels til að spila í. Fnatic völdu í kjölfarið að spila næst í borðinu Bind, en það getur verið talist þeirra sterkasta borð. Borðin Haven, Icebox og Ascent fylgdu svo, í þeirri röð.

Mikla furðu vakti það að leikmaður Sentinels, Tenz, valdi útsendarann …
Mikla furðu vakti það að leikmaður Sentinels, Tenz, valdi útsendarann Raze í fyrsta leik liðanna, en hann hefur sjaldan eða aldrei sést spila þann útsendara áður Skjáskot/Riot Games

Tæpur sigur Sentinels í fyrsta borði

Þrátt fyrir hinn svokallaða veikleika Fnatic í borðinu Split var fyrsti leikur liðanna í borðinu hörkujafn, fyrst 7-5 fyrir Sentinels í hálfleik og svo 12-11 fyrir Fnatic þegar komið var að lokaumferð í venjulegum leiktíma. Sentinels náðu þó að koma leiknum í framlengingu og unnu þar tvær umferðir í röð; lokastaða í Split 14-12 fyrir Sentinels. Lítinn mun var að sjá á leikmönnum liðanna, bæði innan þeirra og liðanna á milli, að einum leikmanni undanskildum; leikmaður Fnatic, Derke, átti hugsanlega versta leik sinn á mótinu einmitt hérna. Þegar leikurinn kláraðist hafði Derke verið felldur 12 sinnum umfram sínar eigin fellur, og gæti þetta beinlínis hafa kostað Fnatic borðið.

Í allra seinustu umferð leiks nr. 2 reyndu Sentinels nýja …
Í allra seinustu umferð leiks nr. 2 reyndu Sentinels nýja nálgun og spiluðu fjórir saman á einum stað – það heppnaðist, en aðeins með naumyndum Skjáskot/Riot Games

Vonir bundnar við næsta borð

Næsti leikur var í borðinu Bind, en það er almennt þekkt sem sterkasta borð Fnatic. Leikurinn byrjaði einmitt Fnatic vel í hag en þegar komið var að hálfleik var staðan 8-4 þeim í vil. Fnatic menn voru þó óheppnir en einmitt um þessa stundina fór TenZ, leikmaður Sentinels, að hitna og átti hann ágætis leik þar sem hann náði 14 fellum umfram sínar eigin fellur. Sentinels náðu enn og aftur að jafna stöðuna og fór því þessi seinni leikur einnig í framlengingu. Í þetta sinn náðu Fnatic að berjast aðeins lengur en í borðinu á undan og var það ekki fyrr en í þriðju framlengingu sem Sentinels náðu tveimur umferðum í röð en lokuðu þó þar með borðinu 16-14.

Leikmaður Fnatic, Derke, átti hugsanlega flottasta 2k mótsins í seinustu …
Leikmaður Fnatic, Derke, átti hugsanlega flottasta 2k mótsins í seinustu umferð seinasta leiksins með þessu Updraft spili – það dugði þó ekki til Skjáskot/Riot Games

Engin framlenging í seinustu viðureign

Eftir að Fnatic töpuðu Bind voru eflaust flestir búnir að gefa Sentinels sigurinn í viðureigninni. Í fljótu bragði leit út eins og Fnatic væru það líka, en þegar komið var að hálfleik var staðan 9-3 fyrir Sentinels. Fnatic tóku hins vegar þvílíka u-beygju í seinni hálfleik og tóku sex umferðir í röð til að jafna leikinn 9-9. Sentinels náðu þó einhverju jafnvægi á þessum tímapunkti og byrjuðu aftur að vinna umferðir en í lokaumferð venjulegs leiktíma var staðan samt sem áður 12-11 fyrir Sentinels og höfðu Fnatic því tækifæri til að keyra leikinn í enn aðra framlenginguna. Það tókst þó ekki og að lokum unnu Sentinels borðið 13-11 og urðu þar með heimsmeistarar.

Kynningarmynd fyrir VALORANT Champions Tour 2021: Stage 3 Masters - …
Kynningarmynd fyrir VALORANT Champions Tour 2021: Stage 3 Masters - Berlín Grafík/Riot Games

Hvað tekur við næst?

Masters Reykjavík var í raun hluti af mótaröð sem nefnist Masters, og var þar annar hluti af þremur. Nú þegar honum er lokið er næst svokallað Stage 3 sem mun eiga sér stað í Berlín dagana 9-19. september. Öll Masters mótaröðin er svo undirbúningur fyrir risamótið Valorant Champions 2021 sem mun eiga sér stað dagana 29. nóvember til 12. desember en með sigri sínum í gær hafa Sentinels nú þegar tryggt sér sæti á Champions mótið.

Fyrir þá sem misstu af leiknum í gær og hafa áhuga á að sjá þessa æsispennandi viðureign liðanna má finna hana hér:

mbl.is