Nafn rafíþróttaliðs keypt á 25 milljarða

Hlutirnir hreyfðust hratt eftir tilkynninguna og var merki TSM umsvifalaust …
Hlutirnir hreyfðust hratt eftir tilkynninguna og var merki TSM umsvifalaust breytt þar sem það birtist, allt niður í Wikipedia Commons Grafík/TSM FTX

Bandaríska rafíþróttafyrirtækið og liðið Team SoloMid (oftast þekkt sem TSM) hefur skrifað undir samning við rafmyntafyrirtækið FTX, en samningurinn segir að TSM bæti við sig nafninu FTX til 10 ára gegn greiðslu sem samsvarar 25,4 milljörðum króna.

TSM heldur úti mörgum rafíþróttaliðum og einstaklingum sem framleiða ýmist efni fyrir þeirra hönd. 

Það vakti því undrun þegar þær fréttir fylgdu að tvö af þeirra vinsælustu rafíþróttaliðum, þau sem TSM heldur úti í tölvuleikjunum League of Legends og Valorant, fengju ekki að breyta nafni sínu vegna þess að framleiðandi leikjanna, Riot Games, bannaði það.

Eigandi TSM, Andy „Reginald“ Dinh, tjáði sig um málið í …
Eigandi TSM, Andy „Reginald“ Dinh, tjáði sig um málið í umræðuþræði á Reddit. Skjáskot/Reddit

Nota nýja nafnið í öðrum leikjum

TSM og FTX munu hafa vitað af því fyrirfram, ef skilja má skilaboð sem Andy „Reginald“ Dinh, eigandi TSM, setti inn á umræðuþráð um efnið á Reddit í kjölfar fréttanna, og virðist sú ákvörðun ekki hafa komið í veg fyrir samninginn.

Liðið mun einfaldlega nota nýja nafnið í öðrum leikjum en þessum tveimur og sömuleiðis munu leikmenn liðsins í League of Legends og Valorant nota nýja nafnið annar staðar en inni í leikjunum.

Áhugavert verður að fylgjast með framhaldinu en upphæðir sem þessar eru sjaldséðar innan rafíþróttaheimsins, og minna heldur frekar á samninga í fótbolta eða körfubolta.

mbl.is