Sendir krakkana út með bros á vör

Rafík hefur aðstöðu í 88 húsinu við Hafnargötu 88 í …
Rafík hefur aðstöðu í 88 húsinu við Hafnargötu 88 í Keflavík. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Í 88 húsinu við Hafnargötu 88 í Keflavík má finna félagsmiðstöðina Fjörheima og innan veggja hennar Rafíþróttadeild Keflavíkur, betur þekkta sem Rafík. Var nýr búnaður af bestu gerð fenginn inn og státar deildin sig nú að aðstöðu sinni sem leyfir allt að 10 iðkendum að æfa samtímis, en eins og staðan er í dag er Rafík með rúmlega 60 iðkendur á bilinu 8-16 ára.

Aðstaða Rafík.
Aðstaða Rafík. Ljósmynd/Aðsend

Félagslega hliðin mikilvæg

Rafíþróttir leggja áherslu á þjálfun en mikilvægur þáttur er jafnframt félagslega hliðin og ánægja iðkenda. Fyrstu vikur Rafík fóru því í að vega og meta áhugasvið iðkenda og fyrirkomulag æfinga kom ekki fyrr en í kjölfarið; í dag er félagið með 12 æfingar í viku sem hefjast um klukkan 14-15 á daginn þegar almennum skólatíma lýkur og er hver æfing 90 mínútur, þar af 60 mínútur í tölvuleikjaspilun en 30 mínútur í hreyfingu og að létta á hausnum og líkamanum.

Jafnframt er áhersla lögð á að hafa hlutina einfalda og þægilega. Við tölvuleikjaspilun eru iðkendur hvattir til að setja sér markmið – eitthvað sem þau vilja bæta sig í svo þau mæti á æfingar með það í huga að vinna í sínum veikleikum. Við hreyfingu er reynt að höfða til allra og gerðar eru einfaldar æfingar s.s. létt ganga, teygjur o.fl.

Iðkandi hjá Rafík í tölvuleiknum Fortnite.
Iðkandi hjá Rafík í tölvuleiknum Fortnite. Ljósmynd/Aðsend

„Það getur verið rosalega gaman að fylgjast með hvað þessir litlu sigrar telja mikið.“

Fyrirkomulagið virðist virka vel en Alexander Aron Hannesson, yfirþjálfari, hefur sérstakt orð á því hversu mikil bæting hefur verið í félagslegu hliðinni hjá iðkendum þeirra: „Mér finnst frábært að taka eftir því dag eftir dag hvað krakkarnir eiga auðveldara með að opna sig hvort við annað, eiga samskipti og mynda vinasambönd. Svo sjáum við þau vinna þessa litlu sigra saman; bara sú tilfinning við að vinna einn leik með vinum sínum á æfingu sendir krakkana út með bros á vör og þau eru ennþá að ræða það á næstu æfingu tveim dögum seinna. Það getur verið rosalega gaman að fylgjast með hvað þessir litlu sigrar telja mikið.“

Umfram æfingar hefur Rafík verið að halda lítil mót innan félagsins og í framhaldinu er stefnt á að byrja að mynda mót með öðrum félögum með sama hætti og aðrar íþróttir eru með mót milli félaga. Alexander segir félagið sjá fram á stóra sýn fyrir rafíþróttir og bendir á framþróun þeirra erlendis sér til stuðnings. Markmið Rafík sé að vera eins sjáanlegt á öllum sviðum sem tengjast rafíþróttum og það getur verið og að taka sem virkastan þátt í uppbyggingunni á íþróttinni hér á landi.

Alexander Aron, yfirþjálfari Rafík og landsliðsmaður í eFótbolta
Alexander Aron, yfirþjálfari Rafík og landsliðsmaður í eFótbolta Ljósmynd/KSÍ

Í þeim anda telur hann að eitt helsta markmið allra rafíþróttaliða hér á landi sé að leggja rafíþróttir upp með sama móti og aðrar hópíþróttir. T.a.m. er framtíðarsýn þeirra félags að vera með bæði æfinga- og keppnisaðstöðu þar sem stutt verður við afreksrafíþróttafólk þeirra og keppnislið, en félagið heldur nú þegar úti keppnisliði í FIFA, Rocket League og Warzone.

Íbúar Reykjanesbæjar og jafnvel allir Suðurnesingar geta eflaust verið ánægðir með starfsemina hjá Rafíþróttadeild Keflavíkur og áhugavert verður að fylgjast með félaginu í komandi framtíð.

mbl.is