Dusty bætir við sig leikmanni í CS:GO

Myndin sem fylgdi tilkynningu Dusty af því að Midgard væri …
Myndin sem fylgdi tilkynningu Dusty af því að Midgard væri kominn í þeirra raðir. Ljósmynd-Grafík/Dusty

Counter-Strike: Global Offensive spilarinn Heiðar Flóvent „Midgard“ Friðriksson sem spilaði með KR í nýliðnu tímabili Vodafone deildarinnar í CS:GO hefur nú gengið í raðir liðsins Dusty. Dusty prófar nú nýja 6-manna liðsskipan og er spennt fyrir framhaldinu. KR samgleðst Heiðari og sjá einnig fram á tækifæri til að vinna með sína eigin liðsskipan.

Vingjarnlegur rígur

Fimmta tímabili Vodafone deildar Rafíþróttasamtaka Íslands (RÍSÍ) í Counter-Strike: Global Offensive lauk 11. maí og var síðasta viðureign tímabilsins milli Dusty og KR. Liðin enduðu í fyrsta og öðru sæti í deildinni, hvort fyrir sig, en þau mættust tvisvar yfir deildina alla þar sem þau unnu sitt hvorn sigurinn.

Nokkuð öruggt er að segja að glitt hafi í ákveðna samkeppni milli liðanna tveggja umfram aðra samkeppni í deildinni eða jafnvel vingjarnlegan ríg.

Það kom því eflaust mörgum skemmtilega á óvart þegar Dusty tilkynntu að Heiðar Flóvent „Midgard“ Friðriksson hafi samið við Dusty, en Heiðar gerði vægast sagt góða hluti á nýliðnu tímabili deildarinnar innan raða KR.

Sex manna liðsskipan

„Við höfum haft augastað á Heiðari í töluverðan tíma, hann er búinn að sýna virkilega góð tilþrif með KR. Hann hefur komið af krafti inn og nú þegar sett mikinn svip á Dusty, hann þekkir auðvitað strákana sem eru í liðinu vel. Hann er gríðarlega metnaðarfullur og vill spila með þeim bestu, þannig að viðræðurnar gengu mjög smurt fyrir sig,“ segir Ásbjörn Daníel Ásbjörnsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Dusty.

„Með viðbótinni erum við með 6 manna liðsskipan núna, sem er ekki hefðbundið, en við ákváðum að fara þessa leið til þess að dreifa álaginu og þannig lítum við á þetta sem jákvætt og mikilvægt skref í þeirri vegferð að stuðla að andlegu heilbrigði innan okkar raða. Við höfum séð lið erlendis aðeins vera að þróast í þessa átt til að hlífa leikmönnum fyrir því að brenna út og við hræðumst ekki að fara leiðir sem virka, þrátt fyrir að þær teljist óhefðbundnar.“

Gætt hefur á umræðu um að atvinnumenn í rafíþróttum láti af störfum nokkuð ungir, en algeng tala sem flýtur um netheima í því samhengi er við 25 ára aldur. Það verður því eflaust áhugavert að fylgjast með því hvernig þessi stefna þjónar Dusty.

Heiðar Flóvent „Midgard“ Friðriksson
Heiðar Flóvent „Midgard“ Friðriksson Ljósmynd-Grafík/Dusty

Gamla liðið samgleðst

Aðspurður segir Þórir Viðarsson, formaður og þjálfari Rafíþróttadeildar KR, að liðið virði ákvörðun Heiðars og samgleðjist honum; hann sé efnilegur spilari og það verði gaman að sjá hann í Dusty.

Í þessu sjái KR jafnframt sitt eigið tækifæri til að vinna með sína liðsskipan. Að því sögðu segir hann að KR hræðist Dusty ekki og hlakki til að mæta þeim í næsta tímabili Vodafone deildarinnar og bætir því glettinn við að þrátt fyrir jafntefli í viðureignum liðanna hafi KR gengið frá þeim með sigur í umferðum.

Aðdáendur Vodafone-deildarinnar og liðanna tveggja virðast því enn geta búist við hörkusýningu þegar næsta tímabil fer af stað.

Midgard er nú þegar byrjaður að spila leiki með Dusty …
Midgard er nú þegar byrjaður að spila leiki með Dusty en þeir keppa núna í ESEA Main - í þessum leik gegn Zorka sat Bjarnii hjá Skjáskot/twitch.tv/dustyiceland

Um framhaldið fyrir Dusty segir Ásbjörn að Heiðar hafi nú þegar spilað nokkra keppnisleiki með liðinu og staðið sig með prýði. Liðið hafi aldrei verið eins drifið og er hann sannfærður um að árangur á erlenda sviðinu sé handan við hornið, en það sé eitthvað sem allir íslenskir CS spilarar hafa verið að bíða eftir.

mbl.is