Íslenskt mót í Valorant fylgir stórmóti Riot Games

Auglýsing fyrir Opna Valorant-mótið.
Auglýsing fyrir Opna Valorant-mótið. Grafík/Rebekka Sif Samúelsdóttir

Opna Valorant mótið í tölvuleiknum Valorant hefst í dag, en áætlað er að mótið spilist yfir 40 daga tímabil eða til 20. júlí.

Mótið fylgir fast á hæla Masters Reykjavík mótsins í sama leik sem haldið var hér á landi í Laugardalshöll dagana 24. til 30. maí. Á því móti kepptu bestu lið heimsins í fyrstu alþjóðakeppninni um, í raun, heimsmeistaratitil í leiknum. Fjallaði mbl.is ítarlega um mótið meðan á því stóð.

Hugsanlegt er að þetta stóra mót hafi ýtt undir áhuga hér á landi fyrir Valorant en nú þegar Opna Valorant mótið, sem er eingöngu íslenskt mót, hefst er orðið ljóst að 15 lið munu etja kappi til að sjá hvert þeirra er best í sinni deild. Leikurinn spilast með fimm leikmenn í hverju liði og þýðir það því að a.m.k. 75 einstaklingar hafa skráð sig til leiks í mótinu.

Þrjár deildir – 15 lið

Í mótinu eru þrjár deildir: efri deild, millideild, og neðri deild. Skiptast liðin 15 á milli deilda á eftirfarandi hátt:

Efri deild:
Leynd
Drottningar
Vitkar
Ótti
Kutar

Millideild:
Laxar
Eiðstafur
Snerpa
Vættir
Fenrir
Skaði

Neðri deild:
Krónur
Atgeirar
Kraðak
Jötnar

Voru leikmenn liðanna sömuleiðis kynntir í tilkynningu sem gefin var út af mótsstjórn mótsins í dag.

Kynning á liðum Opna Valorant-mótsins.
Kynning á liðum Opna Valorant-mótsins. Grafík/Rebekka Sif Samúelsdóttir

Áætla að sýna frá mótinu á þriðjudagskvöldum

Í hverri deild verður keppt í riðlum þar sem hvert lið mætist í einni viðureign tveggja leikja, og fá þar tvö stig fyrir sigur, eitt stig fyrir jafntefli, og núll stig fyrir tap. Mótið virðist þó vera nokkuð frjálslegt og býðst liðum t.d. að spila leiki sín á milli þegar þeim hentar á tímabilinu frekar en að leiktímar séu fastir.

Samkvæmt tilkynningu frá mótsstjórn er áætlað að sýna frá leikjum efri deildar á mótinu á þriðjudagskvöldum og munu upplýsingar um nánari tímasetningu og hvar má nálgast efnið vera gefnar út um helgina eða í síðasta lagi á mánudag. Sömuleiðis mun mbl.is greina frá stöðu mótsins þegar hún er uppfærð yfir keppnistímabilið, og jafnvel fjalla um einstaka leiki mótsins ef úr sýningunum verður.

mbl.is