Keppir fyrir Fylki en alls ekki hættur að sauma

Anton Bjarki í flíkum úr eigin fatalínu.
Anton Bjarki í flíkum úr eigin fatalínu. Ljósmynd/Pétur Freyr Ragnarsson

Anton Bjarki Olsen, einnig þekktur sem „Jenk“, er 22 ára League of Legends leikmaður hjá Fylki.

Hann spilar með Fylki í bikarmeistarakeppninni i sem er núna í gangi en tvö efstu liðin þar fá að fara út að keppa á Telia Masters. Hann stefnir á að halda mótið JCS stuttu eftir það en hann hefur gert það áður, í enda seinasta árs og gekk það mjög vel.

Í maí var hann í prufutökum fyrir stóra rafíþróttamótið MSI sem var haldið í Laugardalshöllinni. Prufukeyrslan fór fram með spilun leiksins til þess að sjá hvort allt væri ekki þægilegt og virkaði rétt fyrir stjörnurnar sem síðan kepptu þar.

Hitar upp líkamann fyrir æfingar

„Ég reyni alltaf að borða eitthvað hollt og hreyfa mig eitthvað áður en ég fer á æfingu hvort sem það er að fara í World Class eða eitthvað annað því mér finnst ég alltaf spila best eftir að maður kemur blóðflæðinu af stað. Svo hitti ég liðið mitt uppí Fylkir eða kveiki á tölvunni heima ef við erum að æfa heima,“ segir Anton Bjarki.

„Við byrjum æfingar á því að fara yfir það hvað við ætlum að æfa á þessari æfingu. Hvort sem það eru strategíur, nýir karakterar eða eitthvað annað. Svo spilum við æfingaleiki við önnur lið og í endann förum við yfir leikina til að sjá hvað við getum bætt.“

Hann er þekktastur fyrir að spila hetjuna „Taric“ sem er verndari lífs, ástar og fegurðar. Hetjurnar Kayn og Draven sitja þó ofarlega á vinsældarlistanum líka.

Hefur spilað frá unga aldri

Hann hefur spilað marga leiki yfir ævina, bæði í Playstation eða á PC-tölvu en telur fyrsta leik sem greip hann algjörlega hafi verið Runescape og var hann þá ekki nema sjö ára.

Seinna meir færði hann sig yfir í Minecraft, síðan Team Fortress 2, Hearthstone og að lokum eftir að vinur hans kynnti League of Legends fyrir honum var ekki aftur snúið.

Flíkur úr fatalínu Antons.
Flíkur úr fatalínu Antons. Ljósmynd/Pétur Freyr Ragnarsson

Hann hafði áður einungis verið að spila sér til afþreyingar og aldrei dottið í hug að heimsmeistaramótið myndi ná fleirum áhorfum en Super Bowl og hvað þá að að
rafíþróttaiðnaðurinn yrði svona stór.

Hafði sjálfur samband og stofnaði liðið

„Ég var alltaf að spila LoL með félögum mínum til gamans þangað til ég sá að það var íslenskt mót í LoL og liðið sem vann fór upp í efstu deildina. Þá ákváðum ég og félagar mínir að skrá okkur í mótið sem „Team Winners Table“ og stóðum við okkur mjög vel. Eftir að við fínpússuðum liðið komumst við upp í efstu deild.

Ég hafði þá samband við Fylki og spurði hvort þá vantaði ekki lið til að keppa fyrir sig í LoL og þeir voru til í það. Næst talaði ég við Hugin Orra betur þekktur sem Hafdal sem var þá í öðru liði í undirdeildinni og sagði honum að okkur vantaði þjálfara og hann var mjög til í það.

Síðan þá hafa verið miklar breytingar á liðinu og ég er eina manneskjan sem hef verið alveg frá byrjun,“ segir Anton og telur miður að Ísland sé ekki komið jafn langt og aðrir þegar kemur að rafíþróttum, sérstaklega vegna þess að núna var eitt stærsta rafíþróttamót heims haldið hér á Íslandi og öll augu á landinu.

Tíska og fegurð alltaf verið hjartans mál 

Anton er ekki einungis frábær leikmaður heldur hefur hann einnig gott auga fyrir fegurð og stíl. Hann hafði sýnt áhuga á tísku frá unga aldri og stundaði síðan nám við fatahönnun þegar hann fór í fjölbraut.

Námið hentaði honum síðan ekki en það stoppaði hann ekki í því að fylgja eftir því sem hann hafði unun að og byrjaði Anton með sína eigin fatalínu þegar hann var sextán ára gamall.

Hér má sjá vefsíðu Antons fyrir fatahönnunina hans, en hann hefur verið duglegur að gefa út fatalínur samtímis því að spila og keppa fyrir Fylki. 

Fjölskyldan stolt

„Það hefur gengið mjög vel en núna er ég að taka mér smá pásu frá því að gefa út fatalínur til að einbeita mér að tölvuleikjaheiminum en ég er langt í frá hættur að sauma.“

Anton minnist þess þegar liðið hans var fyrsta liðið til þess að vinna Dusty í íslensku deildinni og þegar „amma, afi og foreldrar mínir báðu mig um að útskýra leikinn fyrir sér þannig að þau gætu horft á mig spila á Stöð 2 esports“.

Hægt er að fylgjast með Antoni Bjarka Olsen á twitch síðu hans hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert