Excess Success sneri blaðinu við

Staðan í mótinu eins og hún var í byrjun gærkvöldsins
Staðan í mótinu eins og hún var í byrjun gærkvöldsins Grafík/SiggoTV

Excess Success tryggði sér miða á erlenda stórmótið Telia Masters þegar liðið vann VITA 2-0 í úrslitaviðureign neðri riðils í Vor deild LoL Major 2021 í tölvuleiknum League of Legends í gær. Excess Success mætir því Sans í viðureign upp á bikarmeistaratitilinn í kvöld klukkan 19.

Ekki er hægt að segja að Excess Success hafi byrjað mótið með stíl en í allra fyrstu viðureign sinni á mótinu töpuðu þeir gegn XY Esports 0-2. Það virðist þó sem þeir hafi virkilega rýnt í sinn leik eftir þá viðureign og í kjölfarið unnu þeir viðureignir sínar í neðri riðli gegn Pongu og Fylki. Á þeim punkti mættu þeir XY Esports í annað sinn og létu í þetta skiptið í sér heyra með 2-0 sigri sem kom þeim upp í úrslitaviðureign neðri riðils gegn VITA.

VITA hafði aftur á móti spilað með góðum árangri á mótinu um seinustu helgi og unnið sér inn sæti í úrslitum efri riðils með sigrum gegn Sveittir og Fylkir Esports. Þegar þangað var komið voru þeir hins vegar slegnir niður í neðri riðil af Sans.

Lið Excess Success skipa leikmennirnir Máni „Brúsí“, Kári „Tediz“, Mikael „Controversial“ / „Mikú“, Sigurjón „Seifur“, og Orri „Keyser“ / „Alveg Sama“.

Lið VITA skipa leik­menn­irn­ir Ásgeir „Desúlol“ / „HaroldeV“, Ró­bert „HyperActi­ve“ / „RÐC“, Helgi „Nero Ang­elo“ / „Mirettel“, Krist­inn „Kiddi“ / „Aqua Umbrella“, og Há­kon „ko0n“.

Fyrsti leikur

Fyrsti leikur viðureignarinnar byrjaði með VITA í bláa liðinu og Excess Success í því rauða, en völ (e. picks) liðanna voru eftirtalin:

VITA: Rumble, Gwen, Nautilus, Varus, og Yone
Excess Success: Xin Zhao, Wukong, Alistar, Jhin, og Sylas

Strax frá byrjun fyrsta leiks var Excess Success með stjórn á hraðanum og eftir ekki nema rétt tæpar 7 mínútur var staðan orðin grafalvarleg fyrir VITA þar sem Excess Success var komið með forystu upp á tæplega 3000 gull og höfðu fellt fyrsta drekann. Þessi hraði einkenndi restina af leiknum sömuleiðis og lokuðu Excess Success honum á þægilegum 18 mínútum þegar upp var staðið.

Við tæplega 7. mínútu var forysta Excess Success í fyrsta …
Við tæplega 7. mínútu var forysta Excess Success í fyrsta leik strax orðin gífurleg Skjáskot/twitch.tv/SiggoTV

Annar leikur

Annar leikur viðureignarinnar hafði VITA aftur í bláa liðinu og Excess Success í því rauða. Völ liðanna voru eftirtalin:

VITA: Rumble, Leona, Samira, Viktor, og Sett
Excess Success: Kennen, Jhin, Wukong, Rakan, og Viego

Hraði virtist ætla að einkenna seinni leik liðanna sömuleiðis og ekki var liðið á aðra mínútu leiksins þegar stefndi í að fjórir leikmenn úr hvoru liði færu að berjast á miðjubraut. Í kjölfarið tók þó við nokkuð jafn leikur fram að 10. mínútu þegar bardagi milli liðanna tveggja átti sér stað á neðri braut sem virtist ætla að ganga VITA í hag. Leikmenn Excess Success, Brúsi og Seifur, náðu hins vegar að snúa bardaganum við á ótrúlegan hátt og fór leikurinn á einni mínútu úr því að vera jafn í að vera 4.000 gulla forysta fyrir Excess Success á 11. mínútu. Excess Success sleppti bensíngjöfinni ekki og kláraði leikinn á 20. mínútu.

Þrír leikmenn VITA elta tvo leikmenn Excess Success og telja …
Þrír leikmenn VITA elta tvo leikmenn Excess Success og telja að þar séu fríar fellur á ferð, en raunin var svo önnur Skjáskot/twitch.tv/SiggoTV

Með því er það staðfest að Excess Success ásamt Sans eru þau lið sem Ísland sendir út til Telia Masters að keppa gegn stærstu liðum Norðurlandanna, Írlands, og Bretlands.

Aðrar viðureignir gærkvöldsins

Eins og kom fram hér að ofan höfðu Excess Success keppt gegn XY Esports fyrr um kvöldið í gær í annarri viðureign liðanna á mótinu. Þrátt fyrir að XY Esports hafi unnið ágætis 2-0 sigur gegn Excess Success í fyrstu viðureign liðanna var ekki sömu að segja í gær og sneri Excess Success blaðinu við með öruggum 2-0 sigri gegn XY Esports í þetta skiptið.

Hvað er næst?

Þrátt fyrir að vera bæði búin að vinna sér inn miða á Telia Masters mætast Sans og Excess Success klukkan 19 í kvöld til að útkljá það hvort liðið fer heim með bikarmeistaratitilinn. Hægt er að fylgjast með viðureigninni á Twitch: www.twitch.tv/SiggoTV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert