Íslendingur smíðar stýripinna fyrir tölvuleiki

Ívar Sveinsson með stýripinnana.
Ívar Sveinsson með stýripinnana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slagsmálaleikir á borð við Tekken, Street Fighter, Guilty Gear og fleiri geta tekið á sig þægilegri spilun þegar notast er við stýripinna í stað hefðbundins lyklaborðs eða t.d. Playstation-fjarstýringu þar sem slagsmálaleikir krefjast mjög nákvæmra hreyfinga.

Engir slíkir stýripinnar eru þó til sölu á Íslandi.

Eftirspurnin vonum framar

Ívar Sveinsson sagði nýlega frá stýripinnum sem hann er að hanna sjálfur, til þess að gera spilun sína í slagsmálaleikjum þægilegri og skilvirkari, í Facebook-hópnum Tölvuleikjasamfélagið. 

Nú þegar hafa fleiri sýnt stýripinnunum meiri áhuga en hann átti von á.

Hann hefur fengið margar athugasemdir á færsluna sína í tölvuleikjasamfélaginu sem og einkaskilaboð frá fólki sem vill kaupa stýripinna.

Ívar segist eiga efni í tíu stýripinna eins og er en fyrstu aðilar sem munu eignast þessa glæsilegu vöru eru vinir hans. Hann ætlar þó að smíða fleiri til þess að aðrir áhugasamir hafi kost á að kaupa sér slíkan pinna.

Stýripinnarnir sem Ívar Sveinsson smíðar.
Stýripinnarnir sem Ívar Sveinsson smíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sendingin kom aldrei

Ívar byrjaði að hanna og smíða stýripinnann í mars á meðan var hann að bíða eftir tökkum sem áttu að koma frá Kína. Sendingin kom þó aldrei og eftir tveggja mánaða bið ákvað hann að reyna aftur en pantaði þá frá Bandaríkjunum. Markmiðið er að klára og gera þá tilbúna snemma í júlí þegar hann hefur tíma til þess.

Stýripinninn er hannaður þannig að það þarf einungis skrúfjárn til að taka hann í sundur ef einhver myndi vilja skipta út og setja sína eigin takka í staðinn.

Ljósmynd/Aðsend

Nýtir afgangsefni í hagkvæma hönnun

Umgjörðin á stýripinnanum er gerð úr 2 mm þykku hertu áli sem notað er til þess að klæða hús og á botninum verður 2 mm þykkt galvaníserað stál og gúmmífætur á honum sem gefur stýripinnanum meiri þyngd. Þá er hann ekki á fleygiferð þegar mikið er um að vera í leiknum. Hliðarnar verða síðan klæddar viði en hann ætlar að nýta sumarfríið til þess að fræsa timbur til þess.

Allt ál og timbur sem hann er að nota í fjarstýringar eru afgangar sem hann átti heima, efni sem hann hefði annars farið með á haugana.

Drög fyrir Bluetooth-hátalara í skissubókinni

Stýripinninn hefur virkað vel og er mjög góður svartími frá innslætti til móttöku í tölvunni.
Ívar hefur verið að vinna í blikksmiðju seinustu tvö árin en þar hefur hann lært mikla handlagni og öðlast góðan skiling á þeim þáttum sem þarf til þess að búa ýmis tæki til.

Hann hefur meðal annars búið til eyrnalokka úr kopar handa kærustunni og kassa til hýsingar „Magic The Gathering“-spilanna sinna. Í skissubókinni eru nú einnig drög fyrir Bluetooth-hátalara úr steypu og spónaviði en hann segir það vera seinni tíma verkefni.

Hér er hægt að skoða Instagram-síðu stýripinnanna

mbl.is