Alltaf haft áhuga á knattspyrnu

Alexander Aron Hannesson.
Alexander Aron Hannesson. Ljósmynd/KSÍ

Spilari vikunnar er Alexander Aron Hannesson. 

Hann er 26 ára FIFA-spilari í landsliðinu og hjá Rafíþróttadeild Keflavíkur - einnig þekkt sem Rafík. Hann er sömuleiðis yfirþjálfari Rafík og leggur sitt af mörkum við að koma okkur Íslendingum á hærra plan í rafíþróttum.

Átta sig á veikleikum sínum

Aðspurður hvað honum þyki best við leikinn segir hann fótbolta í heild sinni alltaf hafa verið mikið áhugasvið hjá sér. Boltinn, græna grasið og tilfinningin við að sigra, það sé klárlega það besta. 

Hann segir einu leiðina til þess að verða betri í tölvuleikjum vera að spila reglulega, átta sig á veikleikum sínum og gera það að markmiði að vinna í þeim. 

Byrjaði að spila 2017

Alexander Aron segir tölvuleiki hafa verið partur af lífi hans frá því hann var ungur drengur, klassíkin Crash Bandicoot hefur sennilega verið hans fyrsti leikur spilaður en fótboltaleikinn FIFA byrjaði hann að spila undir lok 2017.  

Spurður um uppáhalds leik til þess að spila í frístundum sínum í augnablikinu nefnir hann fyrstu persónu skotleikinn Call of Duty: Warzone.

Alexander Aron segir litlu sigrana án efa vera það besta sem fæst úr rafíþróttum ásamt tilfinningunni sem maður finnur við bætingu – sama hver hún er eða hversu mikil. Bara það að bætingin sé til staðar og áþreifanleg gerir mikið fyrir hann. 

Getur ekki beðið

Honum hafði aldrei dottið í hug að rafíþróttir gætu orðið að því sem þær eru orðnar í dag en þykir virkilega gaman að vera partur af uppbyggingu rafíþrótta og getur ekki beðið eftir að sjá hversu stórt þetta getur í raun orðið. 

Hægt er að fylgjast með honum m.a. á twitch-rás sinni þar sem hann streymir endrum og sinnum fyrir áhugamenn og aðra. 

mbl.is