Ómetanlegar sögurnar frá foreldrum

Arnar Hólm, yfirmaður rafíþrótta hjá XY.
Arnar Hólm, yfirmaður rafíþrótta hjá XY. Ljósmynd/XY.

Það tengja eflaust fáir hið geysivinsæla CrossFit og rafíþróttir saman, en það gerir CrossFit stöðin CrossFit XY sem rekur rafíþróttastarfsemi í formi XY Esports.

Í lýsingu frá stöðinni segir að XY Esports blandi saman hugmyndafræði CrossFit og rafíþrótta, og að í skipulögðu starfi þar fái iðkendur allt það besta af sviði rafíþrótta í bland við þjálfun andlegrar og líkamlegrar heilsu í jákvæðu og uppbyggilegu umhverfi.

Hjá stöðinni eru nú um 50 rafíþróttaiðkendur frá 4.-10. bekk sem æfa tvisvar í viku á æfingum með frjálsu leikjavali, en þar fá þeir einnig þjálfun í m.a. andlegum og líkamlegum styrk samhliða æfingum í tölvuleikjum.

Þar að auki mætir eldri hópurinn, þ.e. iðkendur frá 8.-10. bekk, á eina CrossFit æfingu í viku. Allt að 10 iðkendur mæta á æfingu í einu á almennum tómstundatíma eftir að skóla lýkur og eru æfingar að jafnaði um 90 mínútna langar, þar af u.þ.b. 60 mínútur sem fara í tölvuleikjaspilun en 30 mínútur í æfingar eins og teygjur og öndunaræfingar ásamt því að fara í leiki og taka hreystiæfingar í CrossFit salnum.

Mynd af aðstöðu XY Esports innan CrossFit XY.
Mynd af aðstöðu XY Esports innan CrossFit XY. Ljósmynd/XY Esports.

Skemmtileg samverustund

Beðinn um að lýsa rafíþróttastarfsemi stöðvarinnar í stuttu máli segir yfirmaður rafíþrótta XY Esports, Arnar Hólm:

„Skemmtileg samverustund þar sem við spilum tölvuleiki ásamt því að huga að því hvernig við getum orðið betri útgáfa af sjálfum okkur bæði í raunheimum og stafrænum leikvelli.“

Hann tekur jafnframt fram að tekið sé mið af aðstæðum þess hraða samfélags sem við búum í og reynt sé að búa að æfingum svo þær henti öllum sem best, t.a.m. þyki mikilvægt að iðkendur séu komnir heim fyrir matartíma þar sem það sé mikilvæg stund fyrir fjölskylduna að eiga saman.

Börnin loksins fundið stað

Fyrir utan æfingar taka iðkendur einnig með sér vikulegt heimanám af æfingum, yfirleitt í formi hreystiæfinga en einnig óhefðbundnari verkefni s.s. að taka til í herbergjunum sínum. Það er því greinilegt að XY Esports taka alvarlega markmið sitt að ávallt bæta hvern og einn iðkenda að lágmarki um 1%, hvort sem það er í færni sinni í tölvuleiknum, í líkamlegri eða andlegri heilsu, eða félagslega.

Þetta seinasta atriði segir Arnar mikilvægt, en aðspurður segir hann að það sem standi upp úr í starfinu sé að sjá iðkendur koma inn og eignast vini í hópnum sem þau þekktu ekki áður.

Sömuleiðis séu ómetanlegar allar sögurnar frá foreldrum um hversu þakklát þau séu fyrir þennan valmöguleika og að þeirra börn hafi loksins fundið stað þar sem þau hlakkar til að fara á æfingar og að vera partur af heildinni.

XY Esports.
XY Esports. Ljósmynd/XY Esports.

Einnig með keppnishlið

Fyrir utan barna- og ungmennastarf eru XY Esports einnig með lið í sumum af helstu deildum landsins í ýmsum tölvuleikjum, s.s. Counter-Strike, League of Legends og Overwatch. Eiga liðin það flest sameiginleg að hafa myndast utan XY Esports en fært sig undir borða þess seinna meir og sér þá stöðin um að útvega liðunum flottri æfingaraðstöðu þar sem leikmenn geta æft og spilað saman í návígi.

Æfingar keppnisliðanna eiga sér yfirleitt stað á kvöldin eftir að barna- og ungmennastarfi lýkur og er algengt að æft sé þrisvar til fjórum sinnum í viku. Algengur misskilningur sé að í æfingum felist einungis að spila leikinn en líkt og í hverri annarri íþrótt eru æfingar markvissar þar sem tekist er á við ýmis atriði, s.s. að fara yfir fyrri leiki, að æfa föst leikatriði og að æfa samskipti.

Skorar á yfirvöld

Hrein og bein spilun sér til skemmtunar er yfirleitt geymd fyrir heimahús. Rafíþróttamenn græða sömuleiðis mikið á því að vera í góðu líkamlegu formi og stunda því flestir leikmenn líkamsrækt utan æfinga.

Ljóst er að gífurlega mikið er um að vera í rafíþróttastarfseminni hjá XY Esports og er það ekkert einsdæmi; rafíþróttafélög eru að spretta upp um allt land og beðinn um lokaorð skorar Arnar á yfirvöld að styrkja við grasrótina – það sé mikilvægt að koma til móts við nútímann og þá eftirspurn sem að unga fólkið er að biðja um því þau eru framtíðin. Að lokum óskar hann öllum félögum velfarnaðar í sínu rafíþróttastarfi.

mbl.is