Hörkubarátta um efstu sætin á Tekken-mótinu

K.O.-ið sem lokaði mótinu og tryggði Ronloyd sigurinn.
K.O.-ið sem lokaði mótinu og tryggði Ronloyd sigurinn. Skjáskot/twitch.tv/rafithrottir

Stórt rafíþrótta­mót var haldið í Smáralind á laug­ar­dag­inn í tölvu­leikn­um Tekk­en 7. Mótið var haldið af mbl.is og RÍSÍ og styrkt­araðilar móts­ins voru Tölvu­tek og Smára­bíó. Alls kepptu 32 leik­menn um sig­ur og var PlayStati­on 5-leikja­tölva í fyrstu verðlaun. Að von­um var því mik­il spenna í loft­inu.

Æsispennandi úrslit

Ronloyd Tryggvi Leona vann mótið eft­ir æsispenn­andi úr­slita­viðureign milli hans og Eg­ils Helga­son­ar. Var þetta önnur viðureign þeirra á mótinu en Egill hafði unnið Ronloyd í fjórðu umferð efri riðils og þar með sent Ronloyd niður í neðri riðil þar sem hann átti á hættu að detta út af mótinu að fullu.

Þegar í neðri riðil var komið var leiðin í úrslit síður en svo átakalaus fyrir Ronloyd en fyrst þurfti hann að sigra sinn eig­in föður í sjöundu og næstseinustu umferð neðri riðils. Ronald Leona, faðir Ronloyds, hafði einnig tapað gegn Agli í þriðju umferð efri riðils og mættust feðgarnir tveir því í örlagaríkum leik sem endaði með sigri Ronloyds.

Eftir að viðureign feðganna lauk tók við lokaviðureign efri riðils milli Egils og Júlíusar Kjartans Hlynssonar um það hvor kæmist í úrslit. Vann Egill þá viðureign og tryggði sér sæti í úrslitum en sendi Júlíus í neðri riðil.

Úr viðureign Egils gegn Júlíusi.
Úr viðureign Egils gegn Júlíusi. Skjáskot/twitch.tv/rafithrottir

Ronloyd og Júlíus mættust því í lokaviðureign neðri riðils til að sjá hvor fengi hitt sætið í úrslitum. Júlíus hafði sigrað marga verðuga mótherja en Ronloyd hafði einnig sýnt hvað í sér býr. Að lokum dugði það til og með sigri sínum fékk Ronloyd að keppa til úrslita en Júlíus gekk frá mótinu með þriðja sætið.

Úr viðureign Júlíusar gegn Ronloyd.
Úr viðureign Júlíusar gegn Ronloyd. Skjáskot/twitch.tv/rafithrottir

Í úrslitaviðureign mótsins mættust Egill og Ronloyd því í annað skiptið. Egill hafði þegar sigrað Ronloyd á mótinu og var í raun ósigraður fram að þessu. Ronloyd lét það þó ekki á sig fá og sigraði að lokum og hreppti fyrsta sæti mótsins.

Úr viðureign Egils gegn Ronloyd. K.O.-ið sem lokaði viðureigninni og …
Úr viðureign Egils gegn Ronloyd. K.O.-ið sem lokaði viðureigninni og mótinu. Skjáskot/twitch.tv/rafithrottir

Hægt er að sjá hvernig mótið spilaðist á Toornament síðu mótsins. Úrslit mótsins voru eftirfarandi:
1. Ronloyd Tryggvi Leona á Jin
2. Egill Helgason á Asuka
3. Júlíus Kjartan Hlynsson á Steve
4. Ronald Leona á Devil Jin
5. Ívar Fannar Arnarsson á Kazumi og Dragunov
6. Danival Valsson á Paul og Yoshimitsu
7. Kamil Harkot á Feng
8. Svavar Þór Magnússon á Master Raven

Hægt er að sjá seinustu leiki mótsins á Twitch rás Rafíþróttasamtaka Íslands, www.twitch.tv/rafithrottir.

Fyrsta mótið á þess­um skala

Mótið var haldið af mbl.is eins og áður sagði og mun vera fyrsta rafíþrótta­mót í Tekk­en á Íslandi á þess­um skala.

„Við erum mjög þakk­lát fyr­ir mót­tök­urn­ar, en færri komust að en vildu á mót­inu. Við lærðum mikið og áhug­inn á þessu móti sýn­ir okk­ur að það er góður grund­völl­ur fyr­ir fleiri mót í þess­um dúr. Án Tölvu­teks og Smára­bíós hefðum við ekki getað þetta,“ seg­ir Guðmund­ur Ragn­ar Ein­ars­son hjá mbl.is sem kom að skipu­lagn­ingu móts­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert