Áhyggjur um næsta CS:GO-stórmót

PGL Major Stockholm 2021.
PGL Major Stockholm 2021. Skjáskot/Samsett/Liquipedia.net

Spurningar hafa vaknað um hvort óttast þurfi að næsta stórmót (major) í tölvuleiknum Counter-Strike: Global Offensive (betur þekktum sem CS:GO) verði ekki haldið í Stokkhólmi í Svíþjóð, eins og áætlað hefur verið.

Spurningarnar vakna í kjölfar þess að The International 10, eitt stærsta, ef ekki stærsta, rafíþróttamót heims, tilkynnti að mótið gæti þurft að færa sig frá Stokkhólmi eins og mbl.is greindi frá í lok júní.

Var það hræðsla við að þátttakendur og starfsfólk fengju ekki vegabréfaheimild til að komast til Svíþjóðar sem fékk Valve, fyrirtækið sem stendur bak við The International, að íhuga aðra kosti. Valve stendur einnig bak við tölvuleikinn CS:GO og eru því spurningarnar vel á rökum reistar.

Heimsfaraldurinn hefur orðið til þess að allar keppnir í CS:GO hafa átt sér stað á netinu undanfarið ár og því keppendur og áhorfendur farnir að hlakka til að sjá efstu liðin mæta á LAN-mót aftur, þar sem keppt er á staðnum en ekki yfir netið. Raunar eru tvö ár síðan slíkt stórmót var haldið.

Enn er áætlað að halda stórmótið PGL Major Stockholm í Stokkhólmi dagana 23. október til 7. nóvember en keppendur og aðdáendur halda eflaust í sér andanum þegar slík óvissa liggur fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert