Sæti í úrvalsdeild tölvuleiksins LoL selt á 4 milljarða króna

Salan var gerð til að bjarga fótboltaliði Schalke 04.
Salan var gerð til að bjarga fótboltaliði Schalke 04. AFP

Lið Schalke 04 hefur gengið frá kaupsamingi við lið BDS um sölu á sæti sínu í evrópsku úrvalsdeild tölvuleiksins League of Legends. Lið Schalke 04 er í 7.-9. sæti í deildinni eins og staðan er núna.

Lið BDS mun taka sæti þeirra í deildinni að henni lokinni, en Schalke 04 mun klára tímabilið sem nú er í gangi og gilda leikmannasamningar einnig út tímabilið. Samningur þessi hefur verið í vinnslu í um fimm mánuði, og var niðurstaðan sú að lið BDS keypti sætið á tæplega 4 milljarða króna.

Riot Games, fyrirtækið sem á leikinn League of Legends, ákvarðaði hvaða lið fengi endanlega að kaupa sætið í deildinni. Ekki hefur þó verið tekin ákvörðun um hvað muni gerast við sæti akademíuliðs Schalke 04 í neðri deild.

Nýr kafli fyrir BDS

Lið BDS sagði á blaðamannafundi að þeir hlakki til að láta hæfileika sína skína á hæsta stigi leiksins í Evrópu. Þeir lýsa því sem ákveðnum heiðri að fá að kaupa sætið frá frábæru félagi Schalke 04 og feta í fótspor þess.

Lið BDS hefur verið starfandi frá árinu 2018 og náð góðum árangri síðan þá. Þeir halda úti liðum í leikjunum Rocket League, Valorant, Fortnite, FIFA, Rainbow Six Siege, Trackmania og League of Legends. Það má segja að nýr kafli sé hafinn í sögu liðs BDS þar sem liðið mun taka þátt á næsta tímabili evrópsku úrvalsdeildar League of Legends.

Sorgmæddir og stoltir

Lið Schalke 04 hefur haldið úti liði í rafíþróttum í rúmlega fimm ár og öll þau ár hafa þeir keppt í League of Legends. Tim Reichert, yfirmaður rafíþróttadeildar Schalke 04, deildi hjartnæmum skrifum með fylgjendum sínum á Twitter er salan var staðfest.

Þar segir hann að þeir hjá Schalke 04 séu á sama tíma sorgmæddir og stoltir af þróun mála. Hann tekur einnig fram í færslu sinni á Twitter að þeir peningar sem þeir fá af sölunni muni fara í að aðstoða fótboltalið Schalke 04 m.a. við að undirbúa sig fyrir næsta tímabil.

Gert til að bjarga fótboltaliðinu

Fótboltalið Schalke 04 hefur að undanförnu verið í fjárhagserfiðleikum, sem að einhverju leyti tengjast heimsfaraldrinum, en fótboltaliðið féll niður um deild á síðasta tímabili. Reichert segir í viðtali að þeir hafi reynt hvað sem er til að forðast það að selja sæti sitt í evrópsku úrvalsdeildinni í League of Legends. Því miður fyrir rafíþróttalið Schalke 04 var það eina í stöðunni að selja sætið sitt til að ná að halda fótboltaliðinu gangandi og varð það raunin.

Vegurinn á MSI

Evrópska úrvalsdeildin í League of Legends, eða LEC, er haldin tvisvar á hverju ári, að vori og að sumri. Það lið sem sigrar vormótið fær á hverju ári boð á MSI, Mid-Season Invitational, og í ár var það lið Mad Lions sem mætti til keppni í Laugardalshöll. Fleiri úrvalsdeildir eru innan League of Legends-senunnar og skiptast þær upp eftir heimsálfum eða landsvæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert