„Hardware-based“ svindl verður algengara

AFP

Flestir sem spila tölvuleiki kannast við svokallaða svindlara sem nota svindl til að standa sig betur í leikjunum. Svindl í tölvuleikjum hefur alltaf fyrirfundist og vinna tölvuleikjaútgefendur daglega að því að fækka svindlurum í leikjum. Það er erfitt að útrýma svindli í leikjum alveg þar sem sífellt er búið til nýtt. 

Barátta milli tölvuleikjaframleiðenda og útgefenda svindlforrita

Margir tölvuleikjaútgefendur nota forrit sem greina hvort svindlforrit séu í tölvum leikmanna. Dæmi um forrit sem útgefendur nota til að hindra svindl eru t.d. VAC hjá framleiðandanum Valve, Easy Anti-Cheat hjá Epic og Vanguard hjá Riot Games.

Aftur á móti eru einstaklingar sem vinna hörðum höndum að því að búa til ný svindlforrit sem tölvuleikjaútgefendur þekkja ekki og er það ástæðan fyrir því að illa gengur að útrýma svindli algerlega. Þekkist það t.d. að fólk sé hreinlega í áskrift og greiði mánaðarlega til að hafa alltaf aðgang að nýjasta svindlinu.

Algengasta svindl í leikjum er svindl sem gerir leikmönnum kleift að sjá mótherja í gegnum veggi, skjóta andstæðinga sjálfvirkt er þeir birtast og gefa leikmönnum endalaust líf sem gerir það að verkum að þeir geta ekki fallið. Þetta svindl gefur þeim leikmönnum sem nota það forskot á aðra leikmenn og er ósanngjarnt gagnvart þeim leikmönnum sem vilja spila á jöfnum grundvelli og hafa gaman af. 

Áður óvinsæl tegund af svindli ryður sér leið

Vaxandi í svindlheimi tölvuleikja eru svokölluð „hardware-based hacks“ eða svindl sem byggja á tæknibúnaði leikmanna. Þessi tegund af svindli hefur rutt sér leið inn í heim tölvuleikja sem spilaðir eru á leikjatölvur, þó svo að svindlið þekkist líka í venjulegum tölvum.

Svindl sem byggist á búnaði leikmanna virkar þannig að inntak er sent til fjarstýringarinnar sem notuð er við spilun þegar mótherji er í skotlínu. Leikmaðurinn sem notar svindlið þarf því einungis að miða að mótherjanum og svindlið sér um að fella hann en þarf ekki lengur að samhæfa miðið og inntökin sjálfur.

Það er mögulegt að nota forrit til að greina slík svindl, en það er mun erfiðara að greina svindlforrit byggð á búnaði leikmanna en önnur. Tölvuleikjaútgefendur vinna hörðum höndum af því að halda þessum svindlforritum í skefjum, en það virðist erfitt þar sem notkun þeirra fer vaxandi. 

Sanngjarnir spilarar verða fyrir barðinu

Ljóst er að það verða alltaf spilarar sem ekki vilja leggja á sig þá vinnu sem þarf til að bæta sig í tölvuleikjum og munu nota svindl í staðinn. Sú staðreynd er bæði óheiðarleg og ósanngjörn fyrir þá sem vilja sanngjarna spilun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert