Hefur spilað alla FIFA-leiki síðan 2003

Ljósmynd/KSÍ

Spilari vikunnar er Bjarki Már Sigurðsson. 

Hann er 24 ára FIFA-leikmaður (efótboltamaður) hjá Víking í Reykjavík en spilar einnig fyrir hönd Íslands í landsliðinu. Þar að auki er hann í kennaranámi í Háskóla Íslands og er yfirþjálfari í ungmennastarfinu hjá rafíþróttadeild Fylkis.

Alltaf haft áhuga á knattspyrnu

Bjarki hefur spilað fótboltaleikinn FIFA frá því hann man eftir sér – enda fyrsti tölvuleikur sem hann eignaðist ásamt Playstation 2 tölvu árið 2003. Síðan þá hefur hann átt hvern einasta útgefinn FIFA-leik. 

Þar sem Bjarki hefur alltaf verið mikill knattspyrnuunnandi laðast hann mikið að FIFA og segir keppnina, að sigra og ná góðum árangri, vera hvað mest gefandi og það besta við FIFA-spilun. 

Hann spilar þó fleiri leiki og eru Overwatch, The Last of Us og Portal efst í huga hans þessa dagana utan FIFA. 

Tekur þátt í helgarmótum

Bjarki fær mikla útrás og ánægju úr spilamennsku – sérstaklega þar sem hann hefur að geyma mikið keppnisskap – fyrir utan hvað er skemmtilegt að spila hvort sem hann er einn eða með vinum. 

Hann telur mikilvægt að spila leikinn oft í viku og jafnvel taka þátt í helgarmótum til þess að verða betri.  Bjarki kynnir sér ýmislegt efni eins og brellur og taktík til þess að bæta við í spilamennsku sína. Hann fylgist með toppleikmönnum sem streyma leiknum og reynir að læra af þeim. 

Hann hafði ekki leitt hugann að því hversu stórar rafíþróttir yrðu á yngri árum en þegar hann sá fyrst formlega rafíþróttakeppni var engin spurning fyrir hann að þetta yrði stórt. Bjarki telur frábært hversu hratt íþróttin er að vaxa og er fullviss um að hún muni stækka meir hérlendis. 

Hægt er að fylgjast með honum á Twitter-síðu hans.

mbl.is