Sumarmótaröð RLÍS: Vaddimah heldur áfram að sigra

Auglýsing fyrir Opnu Sumarmótaröðina hjá RLÍS.
Auglýsing fyrir Opnu Sumarmótaröðina hjá RLÍS. Grafík/Rocket League Ísland

Fimmta mót Opnu Sumaramótaraðar Rocket League Ísland fór fram síðasta sunnudag eins og MBL greindi frá í síðustu viku. Um var að ræða 2v2-mót sem samfélag RLÍS ákvarðaði. Sextán lið voru skráð til leiks og var keppt í tvöfaldri útsláttarkeppni. 

Vaddimah heldur áfram að sigra

Annar sigurvegara fyrri 2v2-móta á vegum RLÍS, leikmaðurinn Vaddimah, var mættur til leiks, en fyrrverandi liðsfélagi hans úr þeim mótum, hann EmilVald, var fjarverandi og tók ekki þátt í mótinu. 

Vaddimah, sem er leikmaður KR White í úrvalsdeild RLÍS, var í liði ásamt öðrum KR-ingi, honum Paxole sem spilar fyrir lið KR Black í sömu deild. Lið þeirra bar nafnið Ykkar lykkja í helvíti, en fóru þeir taplausir í gegnum mótið og unnu lokaviðureignina með yfirburðum.

Þetta er í þriðja skipti sem Vaddimah er í sigurliði í Sumarmótaröðinni á þessu ári, en þetta var fimmta mótið í mótaröðinni. Liðsfélagi hans að þessu sinni, hann Paxole, hafði fyrir mótið unnið eitt mót í mótaröðinni.

Liðið Fiskiflugur hefur staðið sig vel í mótaröðinni og endaði í öðru sæti, líkt og á síðasta móti, sem var 3v3-mót. Liðið er tiltölulega nýstofnað og hefur það sýnt framúrskarandi árangur á þeim mótum sem liðið hefur tekið þátt í. Leikmenn Fiskiflugna í þetta sinn voru þeir Ousic og Danni Juice.

Sigurlið mótsins, Ykkar lykkja í helvíti.
Sigurlið mótsins, Ykkar lykkja í helvíti. Skjá­skot/​twitch.tv/​rocket­leagu­eice­land

Gangur mótsins

Liðin Ykkar lykkja í helvíti, #vestomeðbesto, Fledermausmänner, Somnio, Fiskiflugur, The Benchwarmers, Dog Water og Sheeeeeeeeeeeeeeeeeeesh sigruðu í viðureignum sínum í fyrstu umferð og spiluðu í framhaldi um sæti í undanúrslitum efra leikjatrés. Ykkar lykkja í helvíti sigraði á móti liði Somnio í fyrri undanúrslitaviðureigninni í efra leikjatré, og Fiskiflugur sigruðu á móti Sheeeeeeeeeeeeeeeeeeesh í seinni undanúrslitaviðureigninni. 

Með þessum sigrum var ljóst að Fiskiflugur og Ykkar lykkja í helvíti mættust í úrslitum efra leikjatrés þar sem Ykkar lykkja í helvíti sigraði og tryggði sér þar með sæti í lokaúrslitaviðureigninni. Mótinu var ekki lokið fyrir Fiskiflugur, sem fóru með tapinu niður í neðra leikjatré og mættu Fledermausmänner í úrslitaviðureign neðra leikjatrés. Fiskiflugur báru sigur úr býtum og fóru með þeim sigri beint í lokaúrslitaviðureignina.

Niðurstaða mótsins.
Niðurstaða mótsins. Skjá­skot/​twitch.tv/​rocket­leagu­eice­land

Sópurinn á lofti í lokaúrslitaviðureigninni

Lokaúrslitaviðureignin var best-af-5 þar sem sigurvegarar efra leikjatrés fá einn sigurleik í forskot. Þegar viðureignin byrjaði var því staðan 1-0 fyrir Ykkar lykkju í helvíti, og þurfti liðið því einungis að vinna tvo leiki til viðbótar til að tryggja sér fyrsta sætið á mótinu.

Ljóst var að leikmenn Fiskiflugna voru orðnir þreyttir er þeir mættu í lokaúrslitaviðureignina. Liðið Ykkar lykkja í helvíti reyndi að notfæra sér þreytu Fiskifluga, en fyrsti leikurinn varð þó frekar jafn og endaði 5-4 fyrir Ykkar lykkju í helvíti. Paxole, leikmaður Ykkar lykkju í helvíti, var maður leiksins en hann skoraði tvö mörk og gaf tvær stoðsendingar. Liðsfélagi hans, Vaddimah, skoraði þrjú mörk og gaf eina stoðsendingu. Leikmenn Fiskiflugna voru með tvö mörk hvor, en Ousic var með tvær stoðsendingar og þrjár vörslur, en Danni Juice var með eina stoðsendingu og tvær vörslur.

Næsti leikur, sem var síðasti leikurinn á mótinu, varð aldrei spennandi og sigraði Ykkar lykkja í helvíti þann leik 6-1. Vaddimah var maður leiksins í síðasta leiknum, en hann skoraði þrjú mörk, gaf tvær stoðsendingar og varði sjö skot. 

Með sópinn á lofti tryggði Ykkar lykkja í helvíti sér 3-0-sigur í lokaúrslitaviðureigninni og sigruðu þar með á mótinu. Bæði liðin stóðu sig vel á mótinu og er ljóst að lið Fiskiflugna er hæfileikaríkt og á bjarta framtíð fyrir sér. Við óskum Ykkar lykkju í helvíti til hamingju með sigurinn.

Lið Fiskifluga.
Lið Fiskifluga. Skjá­skot/​twitch.tv/​rocket­leagu­eice­land



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert