Geymdi diskinn í geisladiskamöppu eins og í „gamla daga“

Ljósmynd/KSÍ

Spilari vikunnar er Róbert Daði Sigurþórsson. 

Róbert Daði er 19 ára FIFA-spilari hjá Fylki en spilar líka fótbolta í raunheimi hjá Fram. Fyrir utan mikla ástundun fótbolta var hann einnig að klára stúdentinn.

Mörg skemmtileg tækifæri

Hann segist lifa fyrir fótbolta og nefnir að FIFA hafi alla eiginleika hefðbundins fótbolta að geyma, leikmennina, vellina og liðin sem eru að spila fótbolta í dag.  

Róbert er duglegur að æfa og tekur reglulega leiki við liðsfélaga sína og aðra leikmenn erlendis til þess að verða betri í leiknum. Þjálfun skilar sér og fær Róbert í dag að spila með landsliðinu og nýtur annarra skemmtilegra tækifæra sem koma í kjölfarið á því. 

Spilaði Snake í Nokia 3310

Róbert byrjaði að spila FIFA 98 fyrir mörgum árum í Playstation 2. Leikinn geymdi hann í geisladiskamöppu eins og notast var við í „gamla daga“.

Fyrsti leikur sem Róbert spilaði var þó sennilega leikur sem allir kannast við, Snake. Hann fékk að spila leikinn í klassíska símanum Nokia 3310 hjá ömmu sinni í denn. Hann segir FIFA vera eina tölvuleikinn sem hann spilar í dag.  

Hann hafði aldrei kynnt sér rafíþróttir á yngri árum, enda er hugtakið nýkomið til landsins, en fór að kynna sér þetta þegar hann var dreginn inn í þann heim. 

Hægt er að fylgjast með honum á twitch rásinni hans þar sem hann streymir stundum myndböndum af sér að spila. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert