Rafíþróttadeild stofnuð í Kambódíu í fyrsta sinn

MPL rafíþróttadeildin í Kambódíu.
MPL rafíþróttadeildin í Kambódíu. Skjáskot/facebook.com/MPLCambodia

Fyrirtækin Smart Axiata og Shanghai Moonton Technology hafa í sameiningu stofnað fyrstu rafíþróttadeild Kambódíu. Smart Axiata er stærsta fjarskiptafyrirtæki í Kambódíu, en Shanghai Moonton Technology er alþjóðlegur tölvuleikjaframleiðandi. 

Tækifæri fyrir rafíþróttaleikmenn í Kambódíu

Deildin mun bera nafnið MLBB Professional League, eða MPL, og verður keppt í snjallsímaleiknum Mobile Legends:Bang Bang. Deild MPL mun samanstanda af tveim leiktímabilum, en áætlað er að fyrsta tímabilið hefjist í ágúst þessa árs. Með stofnun deildarinnar fá rafíþróttaleikmenn í Kambódíu loks tækifæri til þess að keppa á móti hver öðrum í gegnum heilt keppnistímabil. Verðlaunafé verður í boði fyrir sigurvegara deildarinnar ásamt því að sigurvegarar fá að keppa fyrir hönd Kambódíu í keppnum innan Suðaustur-Asíu. 

Aðdáendur ánægðir

Rafíþróttir hafa notið aukinna vinsælda í Kambódíu upp á síðkastið og hafa verið haldin rafíþróttamót þar, en aldrei áður hefur verið haldin rafíþróttadeild. Aðdáendur rafíþrótta þar í landi hafa lýst yfir ánægju sinni með stofnun deildarinnar og eru spenntir fyrir komandi tímum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert