Jákvæð áhrif tölvuleikjaspilunar á heilsu

Skjáskot/youtube.com/ESLCounter-Strike

Margir halda að tölvuleikjaspilun hafi einungis neikvæð áhrif á heilsufar einstaklinga og telja að spilunin sé í raun tímasóun. Sá hugsunarháttur virðist vera vegna fávisku, en tölvuleikjaspilun hefur marga kosti og getur haft góð áhrif á heilsu einstaklinga.

Getur haft jákvæð áhrif á ýmsa þætti

Tölvuleikir geta haft jákvæð áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu. Spilun hefur hjálpað einstaklingum að draga úr löngunum eða fíkn, eigi þeir við þann vanda að stríða. Margt er hægt að læra í tölvuleikjum sem hægt er að nota í raunheiminum, ásamt því að tölvuleikjaspilun getur aukið félagslega virkni með ýmsum leiðum. 

Aukin hæfni til verkefnalausna

Margir tölvuleikir snúast um að leysa ýmis vandamál og verkefni. Leikmenn læra að leysa mismunandi verkefni, bæði auðvelt og erfið, á eigin spýtur sem hjálpar við þjálfun heilans og gerir leikmönnum auðveldara fyrir með næstu verkefni. Góð hæfni til verkefnalausna getur nýst einstaklingum í daglegu lífi, ásamt því að mörg störf krefjast þess að einstaklingar geti leyst verkefni á auðveldan hátt. Það má segja að aukin hæfni til verkefnalausna geti einfaldað líf einstaklinga og minnkað óþarfa álag.

Aukin heilastarfsemi

Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að tölvuleikjaspilun eykur heilastarfsemi. Margir tölvuleikir krefjast þess að leikmenn noti heilann mikið og geta með því haft áhrif á mismunandi svæði heilans. Aðallega hefur tölvuleikjaspilun þó áhrif á þau svæði sem stjórna minni, rúmáttum, upplýsingasöfnun og fínhreyfingum. Tölvuleikir geta því þjálfað heilann og aukið heilastarfsemi.

Gott fyrir hugann

Einstaklingar geta bætt andlega heilsu með því að spila tölvuleiki, en spilun getur bætt skap og dregið úr kvíða og streitu. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á tölvuleikir hjálpa við streitulosun og hafa þeir vegna þess verið notaðir til meðferða á andlegum vandamálum í meira en áratug.

Aukin þrautseigja

Með spilun keppnisleikja er hægt að auka þrautseigju, t.d. þegar leikmenn tapa leik en halda áfram og gefast ekki upp. Aukin þrautseigja gefur einstaklingum aukið sjálfstraust og gerir þá þrautseigari gagnvart markmiðum sínum, ásamt því að auðvelda þeim að læra af mistökum sínum.

Aukin félagsfærni

Margir halda að einstaklingar sem spila tölvuleiki séu feimnir og eiga erfitt með að mynda félagsleg tengsl, en það er langt frá því að vera rétt. Einstaklingar sem spila tölvuleiki eru í mörgum tilvikum líklegir til að hafa aukna félagslega færni og eiga auðvelt með að mynda tengsl við aðra einstaklinga í kringum sig. Þetta er vegna þess að margir tölvuleikir krefjast teymisvinnu og samskipta við liðsfélaga og mótherja.

Betri ákvarðanataka

Leikmenn þurfa oftar en ekki að geta brugðist hratt við þegar kemur að ákvarðanatöku í tölvuleikjum. Þeir þurfa að hugsa hratt og taka bestu mögulegu ákvörðun í ýmsum aðstæðum til þess að forðast frekari vandamál og aukið álag. Eru þessar ákvarðanir oft teknar undir pressu, en í tölvuleikjum þurfa leikmenn oft að fara í gegnum þetta ferli oftar en einu sinni sem gerir þeim kleift að öðlast meiri hæfni. Með sífelldum ákvarðantökum fá leikmenn þá þekkingu sem þarf til að taka réttar ákvarðanir í mismunandi aðstæðum. Þetta geta einstaklingar nýtt sér í raunheiminum og geta betri ákvarðanir leitt til betra lífs. Allir kannast við að hafa þurft að taka mikilvægar ákvarðanir undir pressu svo getur þessi hæfni svo sannarlega komið að góðum notum.

Ljósmynd / Getty Images

Hafa þarf heilsu efst í huga

Það er þó ljóst að ekki allir spila tölvuleiki með heilsu sína efsta í huga, en það er mikilvægt til að forðast óheilbrigða spilun. Með fræðslu og samvinnu getum við unnið að því að gera tölvuleikjaspilun heilbrigða fyrir alla einstaklinga sem vilja njóta góðs af. 

mbl.is