Væntanlegir leikir sem hægt verður að spila með vinum

Leikurinn New World er meðal þeirra fjölspilunarleikja sem út koma …
Leikurinn New World er meðal þeirra fjölspilunarleikja sem út koma í ágúst 2021. Skjáskot/youtube.com/CrypticFox

Nú þegar heimsfaraldur virðist aftur ætla hafa áhrif á okkar daglega líf eru margir sem leitast eftir samskiptum í gegnum internetið. Miðað við stöðu þjóðfélagsins eins og hún er í dag eru fjölspilunarleikir sniðug leið til þess að eyða tíma með vinum og forðast smit á sama tíma. Í fjölspilunarleikjum geta vinir spilað saman án þess að vera á sama stað í raunheimi og minnka þar af leiðandi möguleika á smitum.

Margir nýir tölvuleikir koma út á ári hverju, en á næstu mánuðum er áætlað að mikill fjöldi leikja verði gefinn út. Í ágúst verða m.a. gefnir út fjölspilunarleikirnir New World, Aliens:Fireteam Elite og Naraka:Bladepoint.

Upplifðu bardaga á fantasíueyju á sautjánda áratugnum

Leikurinn New World kemur út 31. ágúst til spilunar á PC tölvur og verður jafnframt umfangsmesti leikur sem útgefandi Amazon Games gefur út. 

New World er fjölspilunar-bardagaleikur sem gerist í fantasíueyju á sautjánda áratugnum. Leikmenn munu geta notað vopn til að særa andstæðinga og verja sig frá þeim, ásamt því að geta búið til marga bestu hluti leiksins frá grunni. 

Felldu geimverur í leik byggðum á Aliens myndunum

Aliens:Fireteam Elite er leikur byggður á Aliens myndunum sem margir þekkja. Útgáfudagur leiksins er 24. ágúst og hægt verður að spila leikinn á Xbox Series S/X, Xbox One, PlayStation 5, PlayStation 4 og  PC tölvur. 

Leikurinn er skotleikur sem snýst um að lifa af ásamt tvemur liðsfélögum. Bylgjur af óvinum verða sendar af stað til að berjast við leikmenn, en meðal óvina eru banvænar geimverur sem geta valdið miklum skaða. 

Vertu síðastur á lífi vopnaður sverði

Naraka:Bladepoint kemur út 12. ágúst, en leikurinn er svokallaður “battle royale” leikur þar sem leikmenn keppast um að fella mótherja til að verða síðastir eftir á lífi til að sigra. Aðeins verður hægt að spila leikinn á PC tölvum í gegnum Steam og Epic.

Í leiknum berjast leikmenn við aðra mótherja með sverðum, ásamt því að leikmenn hafa gripkrók sem gefur þeim mikinn hreyfanleika. Mörg mismunandi vopn eru í boði fyrir leikmenn og geta þeir valið úr mismunandi karakterum sem hafa allir öfluga hæfileika.


mbl.is