Fimm fylgjendahæstu einstaklingarnir á Twitch

Tyler „Ninja“ Blevins, fylgjendahæsti einstaklingurinn á Twitch 2021.
Tyler „Ninja“ Blevins, fylgjendahæsti einstaklingurinn á Twitch 2021. Skjáskot/youtube.com/Ninja

Flestir tölvuleikjaunnendur kannast við streymisveituna Twitch. Þeir sem fylgjast reglulega með veitunni eiga sér örugglega uppáhaldsstreymi. Vinsælustu einstaklingarnir á streymisveitunni hafa margar milljónir fylgjenda. Hér kemur listi af fimm fylgjendahæstu einstaklingunum á Twitch.

Raul Alvares „AuronPlay“ Genes

AuronPlay er frá Spáni og situr í fimmta sæti yfir fylgjendahæstu einstaklinga á Twitch. Hann sýnir frá tölvuleikjum sem hann spilar ásamt því að hann talar mikið um lífið og tilveruna. AuronPlay hefur 9,16 milljónir fylgjenda, en hann notar einnig YouTube til að auglýsa afþreyingarefni sitt.

Raul Alvares „AuronPlay“ Genes.
Raul Alvares „AuronPlay“ Genes. Skjáskot/youtube.com/Auron

Michael „Shroud“ Grzesiek

Shroud er frá Kanada og situr í fjórða sæti yfir vinsælustu einstaklinga á Twitch. Hann er þekktur fyrir atvinnumannsferil sinn í Counter-Strike: Global Offensive. Shroud ákvað þó að leggja byssuna á hilluna og einbeita sér að því að streyma og búa til afþreyingarefni fyrir aðdáendur. Hann streymir oftast frá sjónarhorni sínu er hann spilar skotleiki sér til gamans. Shroud hefur 9,3 milljónir fylgjenda á Twitch.

Rubén Doblas „El Rubius“ Gunderson

Rubius er frá Spáni og situr í þriðja sæti yfir fylgjendahæstu einstaklinga á Twitch. Hann varð frægur fyrir spilun sína á leiknum The Elder Scrolls V: Skyrim. Rubius deilir afþreyingu og öðru efni á youtuberás sína, en hann hefur 9,6 milljónir fylgjenda á Twitch.

Rubén Doblas „El Rubius“ Gunderson.
Rubén Doblas „El Rubius“ Gunderson. Skjáskot/youtube.com/elrubiusOMG

Turner „Tfue“ Tenney

Tfue er frá Bandaríkjunum og er næstvinsælasti einstaklingurinn á Twitch. Hann er hluti af samtökum FaZe Clan og er einn fremsti Fortnite-spilari í heimi. Innan leiksins Fortnite er hægt að nálgast hluti sem byggðir hafa verið á Tfue. Með 10,5 milljónir fylgjenda á Twitch er Tfue í öðru sæti yfir fylgjendahæstu einstaklinga á Twitch.

Tyler „Ninja“ Blevins

Á toppi listans með flesta fylgjendur er Bandaríkjamaðurinn Ninja. Hann hefur 16,8 milljónir fylgjenda og hefur svo sannarlega unnið hart að því að verða vinsælasti einstaklingurinn á Twitch. Ninja streymir mikið frá því er hann spilar Fortnite, en líkt og Tfue eru hlutir innan leiksins Fortnite byggðir á Ninja.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert