Íslendingur einn af 350 bestu spilurum Norður-Ameríku

Kjartan Daníel að spila fyrir Ohio State háskóla.
Kjartan Daníel að spila fyrir Ohio State háskóla. Ljósmynd/Aðsend

Kjartan Daníel Helgason, 20 ára, er nemi við Ohio State-háskóla í Bandaríkjunum þar sem hann lærir tölvunarfræði og hefur gert síðustu tvö ár. Ásamt því að vera nemi við skólann spilar hann einnig League of Legends undir rafheitinu „Icelandic Hero“ og spilar í liði skólans í leiknum.

Þegar hann vissi að hann hefði komist inn í skólann fór hann að skoða starf rafíþróttaklúbbs hans. Hann kom sér í samband við leikmenn sem nú þegar voru að spila fyrir hönd skólans í leiknum League of Legends.

Spurður hvernig þau samskipti gengu segir Kjartan: „Þegar þeir komust að því að ég væri Grandmaster fóru þeir að spyrja mig hvort ég vildi prófa að spila með þeim bestu í skólanum á móti öðrum skólum. Ég var auðvitað spenntur fyrir því og sagði bara já takk!“

Í fyrstu rekið af nemendum

Í byrjun skólaársins sá rafíþróttaklúbburinn um rafíþróttalið skólans. „Fyrstu önnina mína spiluðum við á vegum þessa klúbbs, sem var í raun rekinn af nemendum.“

Það breyttist þó fljótlega og tók þá skólinn formlega yfir þau lið sem spiluðu fyrir hönd hans. Ásamt því að skólinn tefli fram liði League of Legends eru einnig lið í leikjunum Overwatch og Rocket League. Áður höfðu leikmenn spilað á eigin vegum, en skólinn ákvað í kjölfarið að opna rafíþróttahöll á háskólasvæðinu og gaf leikmönnum tækifæri á að hittast til að æfa saman.

Styrkir fyrir rafíþróttamenn

Kjartan segist ekki vera á skólastyrk, en skólinn hafi ekki verið opinn fyrir styrkjum til rafíþróttaleikmanna. Það sé þó í umræðunni að opna fyrir þá styrki, en Kjartan trúir því að skólastyrkir til rafíþróttaleikmanna verði í boði í flestum skólum innan fárra ára, enda séu rafíþróttir vaxandi.

„Áður en ég valdi Ohio State sýndu nokkrir þjálfarar annarra skóla mér áhuga og einhverjir buðu fullan skólastyrk, sem vissulega hljómaði nokkuð vel.“ Að lokum hafi hann þó endað hjá Ohio State.

Í þessum efnum bendir Kjartan á að hægt sé að skoða vefsíður sem gera leikmönnum kleift að komast í samband við þjálfara í háskólum í Bandaríkjunum, t.d. www.ncsasports.org.

Kjartan var 9-1-11 á Kha'Zix í úrslitaleik Excess Success gegn …
Kjartan var 9-1-11 á Kha'Zix í úrslitaleik Excess Success gegn Sans í Vor deild­ LoL Maj­or 2021. Skjáskot/twitch.tv/siggotv

League upphaflega aukabúgrein

Eins og áður segir stundar Kjartan nám við tölvunarfræði í Ohio State-háskóla. Upphaflega stóð til að þátttaka hans í League of Legends-liðinu yrði aukabúgrein. „Endaði það á því að vera rosalega skemmtilegt og sýndi mér að ég elskaði að keppa á þessum vettvangi,“ segir Kjartan um þátttöku sína í rafíþróttastarfi skólans.

Liðið æfir á vegum skólans tvisvar í viku, þrjá klukkutíma í senn. Á þeim æfingum keppa þeir æfingaleiki á móti öðrum skólum og rýna í eldri leiki sem liðið hefur spilað til að læra hvað má fara betur. Á síðasta tímabili keppti liðið svo vikulega í formlegri deildarkeppni. Til stóð að liðið myndi fara saman í ræktina með styrktarþjálfara sem skólinn útvegaði, en heimsfaraldur setti strik í reikninginn og ekkert varð úr því.

Breytir miklu að spila með liði

Áður en Kjartan byrjaði að spila fyrir League of Legends-lið Ohio State-háskóla hafði hann nánast einungis spilað leikinn einn með handahófskenndum liðsfélögum en ekki sem hluti af föstum hóp. Lið skólans spilar hins vegar leikinn saman og segir Kjartan það hafa verið viðbrigði fyrir sig að spila með föstum hópi, ólíkt því sem hann var vanur.

„Ég þurfti eiginlega að læra leikinn frá grunni, því þegar ég spila leik þar sem allir leikmenn beggja liða geta talað saman öðlast leikurinn meiri dýpt.“ Hann segist hafa lært mikið á því að spila með og á móti bestu leikmönnum deildarinnar sem liðið hans spilar í. Eftir að Kjartan byrjaði að spila fyrir Ohio State hefur hann tekið miklum framförum, en hann hefur farið frá því að vera meðal efstu 1.000 spilara Norður-Ameríku í efstu 350.

Leikurinn verið til staðar hálfa ævina

„Það er rosalega skemmtilegt að geta spilað með og á móti fólki sem ég horfði á þegar ég var yngri og leit upp til. Það minnkar ekki sjálfstraustið að sumir þeirra eru byrjaðir að þekkja mig,“ segir Kjartan þegar hann talar um það að hann hafi verið sýnilegur á twitch-streymi og í youtube-myndböndum hjá frægum League of Legends-spilurum.

Kjartan hefur spilað League of Legends frá því hann var 10 ára, en í dag er hann tvítugur, svo að leikurinn hefur fylgt honum í 10 ár. „Ég ætla að reyna að verða betri og ef ég næ að vera meðal 100 bestu í Bandaríkjunum mun ég skoða tækifæri á borð við LCS.“ LCS stendur fyrir League of Legends Championship Series, sem er deild þeirra bestu í Norður-Ameríku.

Foreldrar Kjartans styðja þétt við bakið á honum, en í fyrstu sýndu þau lítinn áhuga á rafíþróttum. Eftir að Kjartan kynnti þau betur fyrir rafíþróttum varð rafíþróttaheimurinn raunverulegri fyrir þeim og þau sýndu því áhuga. „Mamma horfir stundum á leikina mína meðan hún er að prjóna.“ Hann segir að öll fjölskylda hans hafi fylgst með honum spila í vordeild­ LoL Maj­or 2021 fyrr í sumar þar sem hann spilaði með liði Excess Success.

Spilar aftur með Excess Success í ágúst

Kjartan Daníel og Excess Success spila nú næst á Telia Masters, en áætlað er að mótið hefjist á sunnudaginn. Mun mbl.is fjalla betur um það þegar nær dregur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert