Kalifornía fer í mál við Activision Blizzard

Blizzard Entertainment, Inc. er dótturfélag Activision og er staðsett í …
Blizzard Entertainment, Inc. er dótturfélag Activision og er staðsett í Kaliforníu, Bandaríkjunum. Grafík/Blizzard Entertainment, Inc.

Kalifornía, fjölmennasta og ríkasta ríki Bandaríkjanna, hefur farið í mál við tölvuleikjaframleiðandann Activision Blizzard sem gefur meðal annars út leikinn World of Warcraft. Málið snýst um vinnustaðamenningu Activision Blizzard en henni er lýst sem einskonar partístemningu meðal karla vinnustaðarins, eða „frat culture“.

Drukku sig fulla og skriðu undir skrifborð hjá konum

Segja sögur og málsóknin að karlmenn hjá Activision Blizzard hafi oft mætt fullir eða þunnir í vinnuna án afleiðinga og skilað lítilli vinnu þar sem ábyrgðin hafi yfirleitt verið færð yfir á illa launaða tímabundna starfsmenn sem voru oftar en ekki kvenkyns. Einnig hafi þeir stundað það að drekka í vinnutíma og skríða undir skrifborð og í gegnum vinnustöðvar þar sem þeir áreittu kvenkyns starfsmenn.

Kvenkyns starfsmaður fyrirfór sér

Jafnframt á að hafa átt sér stað mikið kynferðislegt áreiti í garð kvenkyns starfsmanna almennt og sér í lagi í vinnuferðum. Er sérstaklega komið inn á mál þar sem kvenkyns starfsmaður fyrirfór sér í einni af slíkum vinnuferðum vegna þessa.

1.000 starfsmenn lýst yfir áhyggjum

Fréttir um málsóknina birtust fyrst fyrir nokkrum dögum, en í gær var svo gefið út bréf af 1.000 starfsmönnum Activision Blizzard þar sem lýst er yfir áhyggjum af ástandinu og jafnframt reiði yfir svari fyrirtækisins við málinu og ásökunum sem því fylgja. Þar kemur fram að starfsmennirnir óttist einnig að stjórnendur fyrirtækisins muni fara í aðgerðir til að láta fyrirtækið líta vel út frekar en að taka þau skref sem þarf til að tryggja öryggi starfsmanna.

Ekki bara einhver að fara í mál við fyrirtækið

Með bréfinu má segja að nú sé fyllilega hægt að ganga út frá því að Kaliforníu-ríki sé ekki á villigötum. Eru eflaust margir ánægðir að sjá að slíkt mál sé rekið af jafn stórum aðila og ríkinu, en það getur eitt talist fimmta stærsta efnahagsvæði heims, og því ólíklegt að Activision Blizzard nái að komast undan jafn auðveldlega og ef um einkamál frá einstaklingum, s.s. núverandi eða fyrrverandi starfsmönnum, væri að ræða.

mbl.is