Fyrirliði Arsenal heldur rafíþróttamót

Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði Arsenal.
Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði Arsenal. AFP

Rafíþróttasamtökin Galaxy Racer ásamt fótboltamanninum Pierre-Emerick Aubameyang halda mót í leiknum Fortnite. Mótið heitir The Galaxy Racer Aubameyang Cup og byrjar 1. ágúst næstkomandi. 

Mótið nefnt í höfuðið á Aubameyang-bræðrum

The Galaxy Racer Aubameyang Cup er nefnt í höfuðið á Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliða fótboltaliðs Arsenal, og hálfbróður hans, William-Fils Aubameyang, en þeir eru báðir miklir aðdáendur leiksins Fortnite. Þeir verða gestir á streymi mótsins ásamt því að taka þátt í sýningarleik þess.

Keppt í Evrópu og Mið-Austurlöndum

Mótið er haldið fyrir leikmenn frá Evrópu og Mið-Austurlöndum, en pláss er fyrir 150 lið og stendur keppni yfir í fjóra daga. Tveir leikmenn verða í hverju liði og komast 24 lið frá hvoru svæði áfram í úrslitakeppnina. 

Heildarverðlaunafé 1,5 milljónir íslenskra króna

Þau lið sem enda í efstu tíu sætunum á mótinu fá verðlaun, en heildarverðlaunafé mótsins er 1,5 milljónir íslenskra króna. Sýnt verður frá völdum leikjum mótsins á twitch- og youtuberásum Galaxy Racer, en áætlað er að halda gjafaleiki og keppni fyrir áhorfendur meðan á streymi stendur.

mbl.is