Tölvuleikir sem henta eldri byrjendum

Til eru margir mismunandi tölvuleikir, svo flestir ættu að finna …
Til eru margir mismunandi tölvuleikir, svo flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. AFP

Margir hafa áhuga á tölvuleikjum og vilja spila en vita ekki á hvaða leik þeir eiga að byrja. Tölvuleikir eru fyrir einstaklinga á öllum aldri, en það eru ekki allir sem byrja ungir að spila. Ert þú eldri og langar að spila en veist ekki hvar þú átt að byrja? Þá er listi tölvuleikja hér að neðan sem mögulega gætu hentað þér.

Það er lykilatriði að byrja ekki á leikjum sem eru of flóknir, enda mikilvægt að byrja á því að venjast því að leysa auðveld vandamál og læra að nota eiginleika áður en farið er í flóknari leiki. 

Hitman 3

Leikinn Hitman 3 er hægt að spila á PC-tölvur, PlayStation 4 og 5, Xbox One og Series X/S, Nintendo Switch og Google Stadia. Leikurinn snýst um að leysa vandamál með nokkrum mismunandi leiðum sem leikmaður planar fyrirfram. Leikmenn eru í hlutverki leyniskyttu, eins og titillinn gefur til kynna, sem fær ýmis verkefni sem snúast um að fella ákveðnar persónur innan leiksins.

The Last of Us og The Last of Us Part II

Leikina er aðeins hægt að spila á PlayStation-tölvur. Fyrsti leikurinn, The Last of Us, naut mikilla vinsælda er hann kom út og í kjölfari kom út framhald af leiknum, The Last of Us Part II. Sagan í leiknum er frábær og gerir hann eftirminnilegan, en hafa leikirnir báðir unnið til verðlauna. Leikurinn gerist eftir heimsendi þar sem einkennilegur sveppur hefur breytt meirihluta mannkyns í verur sem líkjast uppvakningum. Leikmenn fara í hlutverk manns á miðjum aldri sem missti fjölskyldu sína í heimsendinum og unglingsstelpu sem er ónæm fyrir sveppnum af dularfullum ástæðum.

The Elder Scrolls V: Skyrim

Hægt er að spila Skyrim á Nintendo Switch, PC-tölvur, PlayStation 4 og 5, Xbox One og Series X/S. Snýst leikurinn um að fella dreka og ferðast um land þeirra föllnu og lenda í stríði. Leikmenn geta spilað leikinn eins og þeir vilja, búið til sína eigin persónu frá grunni og fá alfarið að velja eiginleika persónunnar sem þeir þjálfa. Aðalsögulína leiksins er skemmtileg og landslag er stórbrotið, sem gerir upplifun leikmanna stórkostlega.

Slime Rancher

Slime Rancher-leikinn er hægt að spila á PC-tölvur, PlayStation 4 og 5, Xbox One og Series X/S. Leikurinn er blanda milli fyrstu persónu ævintýris, búskaparhermis og þrautaleiks. Leikmenn ráfa um á notalegri, afskekktri eyju, fanga slímverur og fara með þær á heimasvæði sitt. Þar gefa leikmenn slímverunum að borða og rækta hjörð af slímverum. Slime Rancher hentar þeim sem vilja byrja hægt, en verkefni leiksins eru mjög róleg og ekki þarf að flýta sér.

Mikilvægt að þjálfa ýmsa þætti til að takast á við þyngri leiki

Allir þessir leikir eiga það sameiginlegt að vera góð þjálfun í að taka ákvarðanir og finna lausnir á verkefnum í tölvuleikjum fyrir þá sem ekki hafa fyrri reynslu. Frá þeim er svo hægt að takast á við þyngri leiki, en með fyrirfram þjálfun á þessum þáttum er líklegra að upplifun leikmanna í þyngri leikjum verði skemmtilegri því ekki er gaman að festast á erfiðu verkefni sem leikmönnum finnst nánast ómögulegt að leysa.

mbl.is