Hægt að ná árangri með notkun tölvuleikja í kennslu

Mörg börn spila tölvuleiki.
Mörg börn spila tölvuleiki. mbl.is

Rannsókn var gerð í Ástralíu nýlega þar sem hegðun sjö og átta ára barna í skólum þar í landi sem spila tölvuleiki var rannsökuð. Niðurstaðan sýndi að hægt er að ná árangri með notkun tölvuleikja í kennslustofum.

Skilning skortir þegar kemur að ávinningi tölvuleikja fyrir börn, en tölvuleikir geta stutt mikilvægan þroska barna ásamt því að hafa önnur jákvæð áhrif.

Tölvuleikir geta stuðlað að þroska og aukið hæfni barna

Til eru margar mismunandi tegundir tölvuleikja sem bjóða upp á ýmsa möguleika til lærdóms. Tölvuleikir geta stuðlað að margs konar hæfni barna, s.s sköpunargáfu, lausn vandamála, lesskilningi, ritfærni og starfrænum hæfileikum. Til dæmis er hægt að nota tölvuleiki eins og Minecraft við kennslu í kennslustofum, en leikurinn getur m.a. þjálfað börn í teymisvinnu, ýmissi stærðfræði og raungreinum. 

Góð leið til að ná til yngri nemenda

Notkun tölvuleikja við kennslu getur verið góð leið til að ná til nemenda, enda aldrei fleiri börn sem spila tölvuleiki en nú. Það sem gæti staðið í vegi væri þó vanþekking kennara á tölvuleikjum, en mikilvægt er að kennari hafi þekkingu á þeim tólum sem notuð eru við kennslu. Það er þó lítið mál að læra inn á auðvelda leiki eins og t.d. Minecraft sem er vinsæll meðal yngri kynslóða. 

Hvetjum börn til að rækta jákvæðar tilfinningar

Rannsóknin sem gerð var í Ástralíu sýndi fram á að hægt er að ná árangri með því að nota tölvuleiki sem tól í kennslu, auk þess sem tölvuleikir veita börnum alls kyns jákvæðar tilfinningar s.s. stolt, sjálfstraust og félagslega tengingu við jafnaldra sína. Allt eru þetta tilfinningar sem geta haft áhrif á daglegt líf barna og því mikilvægt að leiðbeina þeim í rétta átt.

Hægt er að ná árangri með notkun tölvuleikja í kennslustofum …
Hægt er að ná árangri með notkun tölvuleikja í kennslustofum í skólum. AFP

Mikilvægt að mæta börnum á þeirra grundvelli

Tölvuleikjaspilun hefur umdeilda ímynd, en rannsóknin sýnir að gerð, gæði og tími sem fer í spilun tölvuleikja skiptir mestu máli hvað viðkemur því hvaða áhrif spilunin hefur. Með því að mæta börnum á þeirra grundvelli í tölvuleikjum og kenna þeim heilbrigða hegðun gagnvart tölvuleikjum aukum við möguleikann á samvinnu og jákvæðri upplifun barnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert