Nokkur lið dæmd úr leik fyrir svindl

PUBG Mobile.
PUBG Mobile. AFP

Undankeppnir mótsins PUBG Mobile Club Open: Fall Split 2021 hófust 26. júlí og er áætlað að þeim ljúki 1. ágúst. Skráning í mótið var opin öllum, en því er skipt upp í 23 svæðisbundnar deildir og er heildarverðlaunafé mótsins rúmlega 248 milljónir íslenskra króna. Upp komu vandamál í fyrstu umferðum mótsins er leikmenn notfærðu sér villu innan leiksins til að svindla.

Fyrirbyggjandi aðgerðir borguðu sig

Mótshaldarar höfðu áhyggjur af svindli meðal leikmanna mótsins og tóku þá ákvörðun að skylda alla þá sem taka þátt til að nota forrit sem kemur í veg fyrir svindl meðan á keppni á mótinu stendur. Var þetta gert til að fyrirbyggja mögulegt svindl meðal liða í mótinu. Svindlarar deyja þó ekki ráðalausir og finna oft lausnir til að komast hjá því að slík forrit komi upp um svindl þeirra.

Svindl á mótinu varð því miður raunin er svindlarar fundu nýja villu í leiknum sem þeir nýttu sér fyrstu umferðirnar á mótinu. Mótshaldarar fundu þó villuna, löguðu hana og tóku strax á þeim málum til að koma í veg fyrir óréttlæti gagnvart þeim sem spila sanngjarnt. 

Allir sem notfærðu sér villu innan leiksins bannaðir

Ákvörðun var tekin um að banna alla þá leikmenn sem svindluðu með því að notfæra sér villuna í leiknum. Margir þeirra höfðu þegar spilað einhverja leiki með svindlinu og var þess vegna sú ákvörðun tekin að banna þá alfarið frá mótinu.

mbl.is