Forstjóri Blizzards lætur af stjórn

Blizzard Entertainment, Inc. er dótturfélag Activision og er staðsett í …
Blizzard Entertainment, Inc. er dótturfélag Activision og er staðsett í Kaliforníu, Bandaríkjunum. Grafík/Blizzard Entertainment, Inc.

Tölvuleikjafyrirtækið Blizzard tilkynnti í dag að J. Allen Brack forstjóri lætur af stjórn og munu Jen Oneal og Mike Ybarra taka við starfi hans strax í dag.

Jen Oneal hóf störf hjá fyrirtækinu fyrst í janúar sem framkvæmdastjóri í þróunarmálum hjá Blizzard og veitti hún þar Diablo- og Overwatch-leikjaröðunum mikinn stuðning. Mike kom til Blizzards frá XBOX árið 2019 sem framkvæmdastjóri og var yfir tæknideildinni.

Leggja áherslu á öryggi og jafnrétti

Jen og Mike hafa samanlagt yfir þriggja áratuga reynslu innan tölvuleikjaiðnaðarins og munu í sameiningu deila ábyrgð leikjaþróunar hjá fyrirtækinu sem og framkvæmda fyrirtækisins.

Báðir leiðtogar leggja áherslu á að fyrirtækið bjóði upp á öryggi fyrir alla starfsmenn sína og að þeir finni að þeir séu velkomnir  sama af hvaða gerð eða uppruna þeir eru.

Gerir ráð fyrir ástríðu og heiðarleika

„Ég er viss um að Jen Oneal og Mike Ybarra munu stýra og veita Blizzard það sem þarf til þess að fyrirtækið átti sig á möguleikunum sem það hefur og flýta fyrir þeim breytingum. Ég geri ráð fyr­ir að þau muni gera það af ástríðu og eld­móði og þeim sé treyst­andi til þess að leiða fyr­ir­tækið með heiðarleika og skuldbindingu þeirra þátta sem móta þá menningu sem gerir Blizzard sérstakt,“ segir J. Allen Brack í tilkynningunni á vefsíðu Blizzards.

mbl.is