Tekjuhæsta konan í rafíþróttum

Ljósmynd/Blizzard/Carlton Beener

Hún spilaði tölvuleiki sér til gamans á meðan hún stundaði nám, áður en hún sneri sér að atvinnumennsku, en í dag er hún er tekjuhæsti kvenkyns atvinnumaðurinn í rafíþróttum.

Konur sem hafa atvinnu af rafíþróttum eru færri en karlmenn og hafa fáar haldist jafn lengi í geiranum og StarCraft II-leikmaðurinn Sasha Hostyn eða „Scarlett“. Hún er 27 ára og ólst upp í Kingston í Kanada.

Scarlett steig sín fyrstu skref í atvinnumennsku árið 2011, þegar hún skráði sig á kvennamót NESL Iron Lady. Í lok árs stóð hún uppi sem tvöfaldur bikarmeistari mótsins.

Kom verulega á óvart

Ári síðar var henni boðið á heimsmeistaramótið í StarCraft II, sem halda átti í heimalandinu Kanada. Þar átti hún flekklausa frammistöðu í útsláttarkeppni mótsins og sigraði fjóra öfluga og reynda andstæðinga, sem fleytti henni inn í undanúrslitin.

Aldrei áður hafði kvenkyns leikmaður náð jafn langt innan StarCraft II og hvað þá með svona flottri frammistöðu.

Undanúrslitin gengu vonum framar og hampaði hún á endanum fyrsta sætinu. Var hún því krýnd heimsmeistari á mótinu eftir að hafa komið öllum verulega á óvart.

Í 5. sæti í deildinni

Síðan þá hefur Scarlett átt farsælan feril og er enn að keppa. Nýlega nældi hún sér í fyrsta sæti á mótinu Dreamhack SC2 Masters, þar sem hún lék með liðinu Brave Star Gaming.

Í febrúar gekk hún svo til liðs við kanadískt lið, Shopify Rebellion, sem er sem stendur í 5. sæti í heimsmeistaradeildinni.

Sasha hefur unnið sér inn rúmar 50 milljónir íslenskra króna á ferli sínum og er tekjuhæst kvenna í geiranum en tekjuhæsti karlmaðurinn er 27 ára gamall danskur Dota-spilari, Johan Sundstein, „N0tail“. Hann hefur grætt um 880 milljónir íslenskra króna á ferlinum sínum.

mbl.is