Áhorfendur fyllast nostalgíu

Ljósmynd/Birkir Fannar

Birkir Fannar Smárason, einnig þekktur sem „Leikjarinn“ er 29 ára gamall og hefur verið að streyma í fjöldamörg ár eða byrjaði fyrst árið 2013.

Spilaði Elderscrolls með nágranna sínum

„Fyrsti leikurinn sem ég spilaði var Sonic the Hedgehog á Sega Megadrive sem ég á og hún er hérna bara á borðinu og orginal leikurinn minn er hérna líka beint fyrir framan mig. Það var fyrsti leikurinn sem ég spilaði en svona fyrsti fyrsti leikurinn sem ég spilaði algjörlega í döðlur var Elderscrolls 2 Daggerfall heima hjá nágranna mínum og svo gaf hann mér afrit af leiknum og ég spilaði hann ennþá, ennþá.. ennþá meira!“ segir Birkir og hefur leikurinn Elderscrolls heldur betur slegið í gegn hjá honum því Birkir hefur spilað hann langmest af öllum öðrum leikjum.

Litblinduhamurinn skiptir máli

Þegar Birkir var fyrst að spila League of Legends pældi hann mikið í því hvers vegna það sæist ekkert þegar þú smellir með músarbendlinum einhversstaðar á jörðina á skjánum eins og er í mörgum leikjum t.d. Warcraft 3.

Þá kom í ljós að ástæðan fyrir því að hann sá ekki smelluáhrifin var vegna þess að hann hafði ekki stillt á litblinduham og blönduðust þá litir smelluáhrifanna við liti umhverfisins.
Birkir er nefnilega litblindur og getur hún verið hamlandi við tölvuleikjaspilun þar sem leikmenn þurfa að geta greint umhverfið sitt vel til að bregðast við.

„Þetta hefur hamlað mér í sumum leikjum afþví það eru ekki allir leikir sem bjóða uppá ALLA litblindu valkostina, það eru miklu fleiri en þrjár tegundir af litblindu en ég get spjarað mig í fyrsta colorblind mode’inu,“ segir Birkir en hann getur samt spilað flesta leikir þar sem þeir eru yfirleitt með ágætar litblindustillingar.

Grafík/Leikjarinn

Margt í kortunum

Birkir er um þessar mundir að búa til gameboy color myndband ásamt fyrsta þættinum sínum sem gagnrýnandi á tölvuleikjatengda hluti. Hann hefur margt á prjónunum eins og að leita uppi „retro“ leikjum en vill gera meira efni sem er ekki endilega streymt, eins og hlaðvörp bæði á íslensku og ensku.

„Þetta er allt í vinnslu og ég vill bara koma þessu frá mér á réttum tíma þegar ég er tilbúinn,“ segir Birkir. „Ég hef eiginlega aldrei keppt í neinum leik þannig séð en ég aðallega að keppast við sjálfan mig,“ segir Birkir og hefur undanfarið verið að spila mikið tölvuleikinn Battlefield 5 og þá helst vegna þess að hann er mikill aðdáandi seinni heimsstyrjaldarinnar en hún er einmitt þema leiksins. 

Óvænt hýsing

„Fyrir svona átta árum síðan þá prófaði ég að spila leik sem heitir FTL Faster Than Light og ég var búinn að streyma í tvo tíma og þá kom ARA gaming að hosta mig með 600 manns og þá fór ég í panic mode og vissi ekkert, á þeim tíma þótti 600 manns bara rosalega gott og ég skipti ég yfir í Elderscrolls Arena. Fólki fannst ótrúlegt að ég væri að spila fyrsta Elderscrolls leikinn í stað þess að vera að spila Skyrim eða eitthvað svoleiðis.
Þá kynnti ég fólki fyrir mínum áhuga sem eru retro leikir og hún hélt áfram að hosta mig dag eftir dag eftir dag.“ segir Birkir um tímann þegar hann var að byrja að streyma en þarna var hann í vaktavinnu. Í framhaldi af þessu kom tímabil þar sem hann hefði getað hætt í vinnunni og verið bara að streyma.

„Þetta var á mjög góðri leið en ég var nýbyrjaður að leigja í fyrsta sinn og þorði ekki að taka einhverja svona áhættu og enginn myndi skilja þetta, mjög margir í minni fjölskyldu bara skilja þetta ekkert.“ segir Birkir en seinna meir fór hann að streyma mikið með Omead Dariani sem var einn af aðalhönnuðum leiksins Elite Everquest Landmark og ýtti það verulega undir áhorfendatölurnar. Birkir átti góða daga þá og voru stundum 300-400 manns að horfa á streymin hans þegar hann var einsamall að streyma.

Áhorfstölurnar ekki aðalmálið

„Ég er ekki mikið að spá í hversu há talan er undir skjánum hjá mér en auðvitað er gaman að detta í 30-40-50 manns og þegar maður hefur streymt fyrir GameTÍVÍ er það alltaf í kringum 80-100 manns en já, hver veit !“ segir Birkir.

Ein af kærustu minningum Birkis úr þessum geira kann að vera þegar hann og Bandit, umsjónarmaður streymanna, spiluðu Elderscrolls 2 í tíu klukkutima - bara þeir tveir að spila, skoða og finna allskonar nýja hluti sem þeir vissu ekki áður um leikinn.
„Ég held að það hafi enginn komið við að skoða streymið,“ segir Birkir en þessi fallega stund vinanna vegur þyngra í hjarta hans heldur en önnur atvik þar sem streymin hafa verið sem fjölmennust. 

Skjáskot/Twitch.com/leikjarinn

Nostalgísk upplifun fyrir áhorfendur

„Það sem mér finnst best við að streyma er að geta sýnt fólki æskuna sína, allavega á minni rás. Kynnt fólk fyrir leikjum sem það vissi ekki kannski ekki af eða er búið að gleyma. Ég er ekki bara í leikjum, ég lét til dæmis einn strák alveg missa sig á streaminu mínu þegar ég sýndi honum gömlu VHS spóluna af prinsessunni og durtunum. Hann var búinn að gleyma henni!“ segir Birkir og er fólk því sífellt að endurupplifa æskuna sína.

Fyrir utan það að foreldrar geta í gegnum hann kynnt börnunum sínum fyrir Super Mario Bros 3 á Nintendo leikjatölvu, sem virkaði ekki alltaf. Það þurfti að blása í leikina og er því bæði fróðlegt og skemmtilegt fyrir börn og foreldra að sjá og upplifa nostalgíu sem slíka í gegnum Birki Fannar.

Gæti orðið miklu stærra

„Þetta er svo stórt hérna á Íslandi, eða gæti orðið svo stórt á Íslandi,“ segir Birkir og nefnir sem dæmi að áður fyrr vissi fólk ekki hver Jón Jónsson var. Síðan gaf hann út sitt eigið lag og ekki svo löngu seinna vissi öll þjóðin hver Jón Jónsson var.

„Svona getur líka gerst þegar þú ert streamer. Bara svolítið öðruvísi aðferð sem maður gæti þurft að fara að þessu, en ég held að þetta gæti orðið rosalega stórt ef maður fer rétt að.“ bætir Birkir við. 

Var gestur í Tölvuleikjaspjallinu

Birkir telur að íslenskir efnishöfundar í dag sem eru að streyma gætu verið að fá töluvert fleiri áhorf og komist betur í sviðsljósið en hann talaði um þetta í hlaðvarpinu Tölvuleikjaspjallinu þegar hann fór þangað sem gestur.
Hér má finna hlekkk á þáttinn í Tölvuleikjaspjallinu þar sem rætt var við Birki Fannar.

Hægt er að fylgjast með Birki á Twitch rásinni hans og eins Facebook síðunni undir Leikjarinn.

Grafík/Leikjarinn
mbl.is