Íslenskur keppandi settur í ævilangt bann

Grafík/Karl Vinther

Rafíþróttasamtök Íslands, RÍSÍ, settu nýverið íslenskan Overwatch-keppanda í ævilangt keppnisbann vegna kynferðisbrotamáls.

Alvarlegt brot gegn öðrum keppanda

Atvikið átti sér stað í byrjun stórmótsins Almenna í Overwatch sem er eitt stærsta mót á Íslandi í tölvuleiknum.

Gerandinn dreifði nektarmynd af öðrum keppanda í deildinni en myndin var tekin áður en keppandinn varð lögráða sem gerir málið enn alvarlegra.

Gripið strax í taumana

„Þegar þetta mál kom upp, var farið beint í að ræða við þolanda og í kjölfarið geranda. Þar sem þetta er viðkvæmt og alvarlegt mál, þá var farið strax í að tala við skrifstofu RÍSÍ um hver næstu skref væru og strax ákveðið að bann væri það eina í stöðunni. Var það í höndum RÍSÍ hversu langt bannið væri,“ segir Björgvin Gunnar Björgvinsson Jacobsen, gæðastjóri Almenna.

Mótaröðin Almenni heyrir beint undir RÍSÍ og fylgir lögum og reglum samtakanna.

RÍSÍ tók þá ákvörðun að setja gerandann í ævilangt keppnisbann sem samsvarar tíu árum í heildina en bannið gildir um alla þátttöku í mótum og keppnum á vegum RÍSÍ.

Aron Ólafsson, framkvæmdastjóri RÍSÍ.
Aron Ólafsson, framkvæmdastjóri RÍSÍ. Ljósmynd/Håkon Broder Lund

Samtökin senda skýr skilaboð

„Innan Rafíþróttasamtaka Íslands munum við alltaf taka stöðu með þolendum og við skömmumst okkar ekkert fyrir það að grípa til harðra viðurlaga þegar svona er brotið á fólki. Auðvitað er alltaf leitt þegar það koma upp svona mál en hugur okkar og stuðningur er fyrst og fremst á bak við þann einstakling sem brotið var á,“ segir Aron Ólafsson, framkvæmdastjóri Rafíþróttasamtaka Íslands, í samtali við mbl.is.

„Við viljum byggja upp öruggt umhverfi í rafíþróttum og partur af því að skapa umhverfi þar sem þolendur þora að stíga fram er að taka ákveðið á þeim brotum sem eru tilkynnt. Við störfum eftir skýrum ferlum, sem kalla strax á aðgerðir.“

Samtökin senda með þessu skýr skilaboð um að hegðun sem þessi sé óásættanleg og ekki liðin í rafíþróttum á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert