Heimsmeistaramótið fari fram á Íslandi

Worlds 2021.
Worlds 2021. Skjáskot/InvenGlobal

Fréttavefurinn Dot Esports fullyrðir að næsta heimsmeistaramót í leiknum League of Legends, Worlds 2021, verði haldið á Íslandi. Hefur vefurinn þetta eftir heimildum sínum.

Halda því fram að mótið verið haldið í Laugardalshöll

Í nýjustu frétt miðilsins um málið kemur fram að hann hafi sterkari heimildir um að mótið verði haldið í Laugardalshöllinni, eins og mótin Valorant Masters og MSI sem haldin voru hér á landi fyrr á árinu. 

Er mótið eitt stærsta rafíþróttamót í heimi, en á heimsmeistaramótinu í fyrra var samanlagt áhorf alls 49,95 milljónir á einum tímapunkti. Greindi Riot frá því að meðaláhorfið hefði hækkað um tæp 62% frá því árinu áður.

Heildarverðlaunafé mótsins í ár er rúmar 283 milljónir íslenskra króna.

Keppni hefjist í byrjun október

Kemur einnig fram að mótið muni hefjast 5. október og er áætlað að úrslitaleikur mótsins verði spilaður 6. nóvember. Segir í umfjölluninni að allir leikir mótsins muni fara fram á Íslandi, þar sem ferðatakmarkanir eru slakar og henta vel fyrir leikmenn frá flestum löndum og landssvæðum.

Heyrðist orðrómur um að mótið yrði haldið hér á landi í kjölfar tilkynningar Riot Games, mótshaldara Worlds 2021, um að mótið yrði haldið í Evrópu, en ekki Kína eins og upphaflega var tilkynnt. 

Frábært fái Ísland þau forréttindi að halda aftur stórmót

Eins og áður náðist ekki í Íslands­stofu við vinnslu frétt­ar­inn­ar og Rafíþrótta­sam­tök Íslands vildu ekki tjá sig um málið. Spenn­andi verður að fylgj­ast með gangi mála, með von um að Ísland fái aftur að njóta þeirra for­rétt­inda að halda alþjóðlegt stór­mót í rafíþróttum.

mbl.is