Kínversk yfirvöld takmarka tölvuleikjanotkun

AFP

Kínversk yfirvöld hafa nýlega sett takmarkanir á tölvuleikjanotkun barna undir 18 ára aldri.

Kínversk börn mega nú aðeins spila tölvuleiki í klukkutíma í senn eða á milli 20 og 21 á föstudögum, laugardögum, sunnudögum og á rauðum dögum. Takmörkin heimila kínverskum börnum þar af leiðandi að spila tölvuleiki í um þrjár klukkustundir á viku.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kínversk yfirvöld setja strangar reglur á tölvuleikjanotkun en árið 2019 máttu börn aðeins spila í eina og hálfa klukkustund á flestum dögum. Einnig var sala á leikjatölvum eins og PlayStation og Xbox ekki leyfileg á árunum 2000 til 2015.

Bannið á leikjatölvum í Kína olli aukinni spilun símaleikja en árið 2010 notuðust um 303 milljónir manna við snjallsíma til þess að vafra um á netinu en árið 2020 nota um 911 milljónir manns við snjallsíma.

Kínverskir leikmenn spila meir en bandarískir

Í Kína ríkir mikil tölvuleikjamenning og samkvæmt rannsókn frá Limelight Networks spiluðu kínverskir leikmenn tölvuleiki að meðaltali í 12,4 klukkustundir á viku en það er talsvert meira heldur en í t.d. Bandaríkjunum þar sem meðaltíminn á tölvuleikjaspilun þar eru 7,7 klukkustundir á viku.

Samkvæmt sömu rannsókn spila um 34% Kínverja tölvuleiki í vinnunni daglega.

Kínverskir spilarar eru yfir 720 milljónir og þar af um 110 milljónir börn undir 18 ára að sögn Daniels Ahmad, tölvuleikjasérfræðings hjá fyrirtækinu Niko Partners.

Tölvuleikjaspilun hefur jafnframt verið kallað „andlegt ópíum.“ 

Árstekjur símaleikja jukust um rúm 30% á einu ári

Þrátt fyrir þessar ströngu takmarkanir var árið 2020 farsælasta ár rafíþrótta í Kína og reis símaleikjamarkaðurinn upp úr öllu veldi og voru árstekjurnar þar um 29,2 milljarðar bandaríkjadala og jókst um 30,9% frá árinu áður samkvæmt Niko Partners.

Ahmad segir tölvuleiki vera hannaða til að hvetja fólk til að eyða raunverulegum peningum innanleikjar, hvort sem það sé að fjárfesta í hlutum sem gefa þér einhvers konar forskot í leiknum eða jafnvel bara útlit. Hvatning sem þessi geti gert leikina mjög vinsæla og ávanabindandi.

Samskipti leikmanna í tölvuleikjum skipta gríðarlegu máli og myndast því ýmis félagsleg tengsl við tölvuleikjaspilun. Rúmlega helmingur tölvuleikjaspilara fullyrða að þeir hafi eignast nýja vini í gegnum tölvuleiki og 36% einstaklinga segja samskipti við aðra spilara vera mikilvæg samkvæmt rannsókn Limelight Networks.

Viðurkennd og vinsæl íþrótt

Kínverska hagstofan flokkaði rafíþróttir opinberlega sem viðurkennda íþrótt árið 2019 og ári seinna tilkynntu sveitastjórnir í Shanghai og Peking kynningarherferð og veittu styrki til þess að þróa rafíþróttir betur í borgum sínum.

Ríkisútvarpið stóð fyrir sex þáttum af heimildarefni um rafíþróttir árið 2020 og höfðu háskólar um allt Kína útbúið val og stórgreinar tengdar rafíþróttum.

Áhorfendahópur rafíþrótta fer einnig vaxandi og verja kínverskir áhugamenn um 3,9 klukkustundum á viku í að horfa á rafíþróttakeppnir en til samanburðar verja þeir aðeins um 3,3 til 3,5 klukkustundum á viku í að horfa á hefðbundnar íþróttir á netinu eða í sjónvarpinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert