Íslenska Turf deildin í Rocket League hefst á morgun

Turf Deildin í Rocket League hefst á morgun.
Turf Deildin í Rocket League hefst á morgun. Grafík/Turf Deildin

Á morgun hefst þriðja tímabil úrvalsdeildarinnar í Rocket League á Íslandi. Rocket League Ísland, betur þekkt sem RLÍS, stofnaði í fyrsta sinn deild í Rocket League fyrir rúmlega ári síðan, og fara af stað með þriðja tímabil deildarinnar á morgun.

Keppt í þremur deildum

Keppt verður í þremur deildum á upprennandi tímabili, úrvalsdeild, fyrstu deild og annarri deild. Eru úrvals og fyrsta deild fullskipaðar, en enn eru laus pláss í annarri deildinni fyrir næsta tímabil. 

RLÍS hóf samstarf með Turf fyrr í sumar í tengslum við úrvalsdeildina, en Turf er nú stærsti styrktaraðili úrvalsdeildar RLÍS. Úrvalsdeildin mun því á tímabili þrjú bera nafnið Turf Deildin.

Beinar útsendingar á Stöð2 Esport og Twitch

Turf deildin hefst á morgun klukkan 19:00 og verður sýnd í beinni útsendingu á Twitch-rás RLÍS og Stöð2 Esport. Hægt er að sjá niðurröðun leikja og úrslit hér.

Allar viðureignir Turf deildarinnar verða sýndar á Twitch-rás RLÍS og Stöð2 Esport í haust, en útsendingar verða alla sunnudaga klukkan 19:00 og þriðjudaga klukkan 18:30. 

Fyrsta umferð

Fyrsta umferð Turf deildarinnar hefst á morgun, en Þór Akureyri og Keflavík mætast í fyrstu viðureign tímabilsins klukkan 19:15. Í kjölfarið mætast LAVA esports og oCtai Esports klukkan 19:50, og svo KR og Midnight Bulls klukkan 20:25. Lokaviðureign kvöldsins verður á milli Somnio og PandaBois klukkan 21:00. 

Andri Valur „Dingo“ Guðjohnsen og Bjarni „Baddi“ Tryggvason munu saman lýsa öllum viðureignum Turf Deildarinnar sem fram fara á sunnudögum á þriðja tímabili, en Dingo og Guðmundur „Zuezie“ Þorvaldsson munu svo lýsa á þriðjudögum.

Ennþá opið fyrir skráningu í neðri deildir

Keppni í fyrstu deild hefst svo næsta fimmtudag og verður sýnd í beinni útsendingu á Twitch-rás RLÍS, en útsendingar í fyrstu deild RLÍS á tímabili þrjú verða á vegum 354 Gaming. Enn er opið fyrir skráningu í aðra deild RLÍS en fleiri upplýsingar um neðri deildir og samfélagið í heild sinni er að finna á Discord-þjóni RLÍS.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert