Keppti með landsliðinu í Los Angeles

Mbl/Unnur Karen

Arnaldur Ingi Stefánsson, einnig þekktur sem Futhark er tvítugur rafíþróttamaður á hraðri uppleið í íslenskri senu rafíþrótta.

Arnaldur spilar bæði fyrir hönd Íslands í fyrstu persónu skotleiknum Overwatch og með rafíþróttaliðinu Böðlar á Akranesi. Á um það bil árstímabili hafa Böðlar unnið Almenna bikarinn tvisvar og hömpuðu öðru sæti í helgarmóti sem haldið var í enda ágúst.

Keppti í Los Angeles

„Þegar ég frétti fyrst af því að Ísland gæti komist í heimsmeistaramótið í Overwatch 2019 var ég frekar mikill „outsider“ í íslensku senunni, ég þekkti nánast engann og hafði eytt mest af mínum tíma í það að spila með erlendum amatöraliðum í Evrópu. En þegar ég sá að það var verið að halda opnar prufur í landsliðið skráði ég mig í þær og var að lokum valinn í hópinn sem myndi fara út að keppa í Overwatch World Cup (OWWC) í Los Angeles á Blizzcon 2019,“ segir Arnaldur um upphaf ferils síns í landsliðinu en áður en liðið fór til stórborgarinnar Los Angeles keppti það í evrópumótinu Eurocup með ótrúlegum árangri.

„Við sigruðum þar meðal annars Þýskaland í undanúrslitum og Danmörku í úrslitum og unnum mótið. Við náðum ekki beint alveg eins miklum árangri úti í Los Angeles en samt sem áður var það alveg ótrúleg reynsla fyrir mig persónulega,“ segir Arnaldur.

Landsliðsmenn góðir vinir

„Þegar ég var fyrst valinn í landsliðið var ég meðal þeirra reynsluminnstu í liðinu. Leikmenn eins og Hafficool og Finnsi voru báðir atvinnumenn á þeim tíma og Hafficool er mjög sterkur leiðtogi þannig að miklu leyti var ég bara að hlusta á þeirra leiðsögn og fylgja ráðum þeirra. Núna í Böðlum höfum við þrír landsliðmennirnir í liðinu þurft að vera leiðtogarnir og það er hlustað mun meira á það sem við erum að segja inn í leiknum. Það er alveg mikill munur að allt í einu þurfa bara að vera leiðtogi liðsins en okkur hefur gengið alveg ágætlega að finna út úr þessu,“ svarar Arnaldur aðspurður um samanburð þess að spila með Böðlum og í landsliðinu.

Ekkert opinbert landsliðamót hefur farið fram í senu Overwatch í um tvö ár vegna Covid en landsliðið þátt í óopinberu Evrópumóti (EBC) í október í fyrra undir nafninu „Einherjar“ og lentu þar í 9-10. sæti. Arnaldur segir að þrátt fyrir að þeir hafi ekki spilað leik sem íslenska landsliðið í langan tíma þá eru þeir í landsliðinu mjög góðir vinir og að þeir talist við mjög reglulega, ef ekki daglega.

Háskólar í Bandaríkjunum bjóða upp á námsstyrk

Auk þess að spila með Böðlum í úrvalsdeild Almenna þá er Arnaldur einnig að þjálfa lið í opnu deildinni. Hann þjálfar rafíþróttaliðið Musteri Stykkishólms en hann er einnig nýútskrifaður úr menntaskóla. Hann hyggst ætla að taka sér frí frá náminu en langar til þess að stunda nám erlendis.

„Það eru þó nokkrir háskólar í Bandaríkjunum sem bjóða upp á námsstyrk fyrir hæfileikaríka Overwatch spilara til þess að þeir geta komið og spilað fyrir háskólalið þeirra. Þetta er eitthvað sem ég er persónulega mjög spenntur fyrir og mig langar til þess að prófa,“ segir Arnaldur.

Hefur spilað frá þriggja ára aldri

Arnaldur hefur spilað tölvuleiki frá því hann var um þriggja ára gamall og minnist hann þess að hafa spilað tölvuleikin Ratchet & Clank á PlayStation 2 leikjatölvu fyrir um 16-17 árum síðan.

„Ég hef spilað tölvuleiki síðan ég var krakki en pældi alls ekki mikið í rafíþróttum fyrr en að Overwatch kom út. Þegar að ég uppgötvaði rafíþróttasenuna í Overwatch byrjaði ég að horfa töluvert á professional leiki og mér fannst það ótrúlegt hve vel þessir leikmenn gátu spilað. Ég held það má segja að það hafi hvatt mig til þess að bæta mig í leiknum og ég byrjaði að spila leikinn með það markmið að verða almennilega góður,“ segir Arnaldur og náði hann fljótlega að ná árangri í tölvuleiknum.

„Ég náði Grandmaster í season 8 af Overwatch ranked, (u.þ.b einu og hálfu ári eftir að leikurinn kom út) og hélt áfram þangað til að ég komst upp í rank 117 yfir bestu leikmenn í Evrópu í season 11 (um mitt 2018). Það var um það bil þá sem ég ákvað að reyna að verða atvinnumaður og fór að ganga í alls konar amateur lið í þeirri von að geta orðið nógu góður til þess að komast í atvinnulið.“

Áhugasamir og stuðningsríkir foreldrar

„Þegar ég var fyrst byrjaður að dreyma um það að verða atvinnumaður langaði mig helst bara að hætta í skólanum og gera ekkert annað en að spila Overwatch allan daginn, en mamma og pabbi sannfærðu mig um það að klára a.m.k stúdentinn og er ég mjög þakklátur þeim varðandi það. Ég held þau myndu bæði viðurkenna að þau þekktu mjög lítið til rafíþróttaheimsins og áttuðu sig kannski ekki beint á því hve massívar rafíþróttir eru í dag og þau voru kannski skiljanlega hrædd þegar ég byrjaði að loka mig inní herbergi langt fram á nótt að spila en þegar þau kannski áttuðu sig aðeins betur á þessum heimi þá studdu þau mig og hvöttu mig áfram og vildu skilja meira. Allt í allt vildu þau bara það besta fyrir mig og ég er mjög þakklátur fyrir það að hafa þau að,“ segir Arnaldur um foreldra sína sem hafa staðið þétt við bakið á honum.

Eftirminnilegar stundir með landsliðinu

Arnaldur segir rafíþróttir vera í góðum farveg á Íslandi og er spenntur fyrir opnun Arena, sem er svokallaður þjóðarleikvangur fyrir LAN-keppnir og mót. Ásamt því að íslenska Overwatch senan er á hraðri uppleið, sem hann er helst að einblína á.

Hann segir upplifunina að fá að vera í landsliðinu dýrmæta og þá sérstaklega þegar þeir sigruðu Eurocup mótið.

„Við vissum að við værum sterkt lið en ég held að nánast allir bjuggust við því að Danmörk, sem var með lið fullskipað atvinnumönnum, myndi vinna. Þannig að þegar við ekki bara unnum, heldur rústuðum þeim 3-0 í úrslitum, þetta var án efa eftirminnilegasta stundin á ferli mínum so far.“

Hægt er að fylgjast með Arnaldi eða „Futhark“ á streymisveitunni Twitch á rásinni fuuthark.

mbl.is