Óvæntur sigur í Frostaskjóli

Grafík/Super Smash Bros

Rafíþróttamót var haldið í Frostaskjóli á laugardaginn í tölvuleiknum Super Smash Bros en mótið tók á sig óvæntan endi.

Taplaus sigurvegari

Elias Young eða „Whirlpool“ hampaði fyrsta sætinu með 3-0 sigri í úrslitaleiknum gegn Erlingi Atla Pálmarssyni eða „AirLi“ en Whirlpool hafði unnið alla sína leiki á mótinu.

Erlingur Atli, „AirLi“ situr í öðru sæti en hann hefur hingað til verið sá besti á landinu í Smash Bros síðan árið 2017 og hefur að geyma 87% sigurhlutfall samkvæmt íslenskri tölfræði á vegum íslenska Smash Bros samfélagsins.

„Ég er kominn með mikla hvatningu núna og ég elska það,“ segir Erlingur um sigur Whirlpool og telur hann sigurinn einnig hvetja aðra þátttakendur til þess að æfa sig meira.

Í þriðja sæti lenti Bergsteinn Ásgerisson „Solar“ og Egill Helgason „Egiru“ í því fjórða en nánari upplýsingar um mótið má skoða hér.

Tóku einnig þátt í Tekken móti MBL

Egill tók einnig þátt í rafíþróttamóti á vegum MBL þar sem keppt var í tölvuleiknum Tekken og lenti hann þar í öðru sæti. Sigurvegari þess móts, Ronloyd Leona keppti einnig í mótinu í Frostaskjóli en lenti hann í sjöunda sæti.

mbl.is