„Eins stórt og það getur orðið“

Aðalsteinn spilar gjarnan töluleiki með börnunum sínum.
Aðalsteinn spilar gjarnan töluleiki með börnunum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Einn stærsti viðburður rafíþrótta í heiminum verður haldinn hér á Íslandi í haust. Viðburðurinn stendur yfir frá 5. október og fram til 6. október. Búist er við að um þúsund manns komi til landsins vegna þessa. Að auki munu milljónir áhorfenda fylgjast með viðburðinum í beinu streymi.

Um er að ræða heimsmeistaramótið í tölvuleiknum League of Legends.

Ísland reyndist vel

Ástæða þess að heimsmeistaramótið verður haldið hér á Íslandi, nánar tiltekið í Laugardalshöllinni, er sú að takmarkanir í Kína komu í veg fyrir mótahald þar eins og áætlað var.

Fyrirtækið Riot Games, sem gaf út tölvuleikinn og heldur mótið, þurfti að grípa til annarra ráða vegna þessa.

Ísland reyndist fyrirtækinu vel fyrr í vor þegar MSI-mótið eða undanfari heimsmeistaramótsins var haldinn hér í Laugardalshöllinni með skömmum fyrirvara og góðum árangri, en úr því hefur Riot Games ákveðið að halda mót aftur hér á Íslandi.

Frá sviði MSI-mótsins í Laugardalshöll.
Frá sviði MSI-mótsins í Laugardalshöll. Ljósmynd/Aðsend

Milljónir áhorfenda

Venjulega eru mót sem þessi haldin með þúsundir áhorfenda í sal og fleiri milljónir manna sem fylgjast með í beinu streymi, en faraldurinn knýr mótastjórn til að haga mótinu með öðrum hætti. Engir áhorfendur verða leyfðir í sal og verða öryggisráðstafanir strangar eins og fyrr í vor.

„Mótið sem var haldið hér í vor gaf vísbendingu til þessa fyrirtækis, sem er einn stærsti tölvuleikjaframleiðandi í heimi, um það að Íslendingar geti brugðist svona hratt við með skömmum fyrirvara,“ segir Aðalsteinn Haukur, eigandi fyrirtækisins Recon og fyrrum stjórnarmaður hjá SolidClouds, í samtali við mbl.is.

„Þetta er eins stórt og það getur orðið. Með aðkomu Rafíþróttasamtaka Íslands er búið að virkja þessa meðvitund um að Ísland sé staðsetning fyrir slík mót. Þessi viðburður er að skila milljörðum í tekjur til Íslendinga, bara út af framleiðslukostnaði,“ segir Aðalsteinn.

Mótið stendur yfir í heilan mánuð og koma um þúsund manns til landsins, bæði starfs- og leikmenn í tengslum við þetta heimsmeistaramót og verða þar af leiðandi þúsundir gistinátta bókaðar hér til þess að hýsa mannskapinn.

Stofnun Rafíþróttasamtaka Íslands spilað stóran þátt

„Vegna aðkomu og stofnunar Rafíþróttasamtaka Íslands er þetta eitthvað sem að hefði ekki orðið til nema fyrir tilstuðlan þess að þau voru stofnuð fyrir þremur árum síðan. Það er í gegnum þeirra tengslanet sem að í rauninni var unnið að því að koma þessum viðburði á í vor, sem hefur í raun haft bein áhrif á það að þessi viðburður er haldinn núna vegna þess að þetta tókst svo rosalega vel síðasta vor.“

Aðalsteinn telur að byggja þurfi fjölnota íþróttahöll til þess að efla rafíþróttir á Íslandi enn frekar. Gera þyrfti ráð fyrir að rafíþróttaviðburðir gætu verið þar haldnir, ásamt því að geta haldið tónleika, íþróttaleiki og þar fram eftir götunum.

Worlds 2021, heimsmeistaramótið í League of Legends, fer fram á …
Worlds 2021, heimsmeistaramótið í League of Legends, fer fram á Íslandi. Grafík/RiotGames
mbl.is