Ljósmyndunarhermir væntanlegur

Skjáskot úr væntanlegum leik Photography Simulator.
Skjáskot úr væntanlegum leik Photography Simulator. Skjáskot/youtube.com/ThePlayWay

Pólski leikjaútgefandinn PlayWay hefur tilkynnt að unnið er að gerð leiksins „Photography Simulator“ sem á íslensku þýðir ljósmyndunarhermir. 

Hermisleikir vinsælir

Margir hermisleikir hafa verið gefnir út og notið mikilla vinsælda, t.d. búskapshermir, flughermir og bifvélavirkjahermir. Verður ljósmyndunarhermir því nýjasta viðbótin við sívinsælu hermisleikina.

Ekki er sami útgefandi allra hermisleikja sem til eru, heldur er fjöldinn allur af útgefendum sem hafa gefið út mismunandi tegundir hermisleikja.

Útgefandinn PlayWay hefur gefið út mismunandi tegundir leikja, en þekktustu leikir þeirra eru House Flipper, Thief Simulator, Mr. Pepper og Car Mechanic Simulator 2014.

Fara í hlutverk náttúrulífsljósmyndara

Spilarar fara í hlutverk náttúrulífsljósmyndara og geta ráfað um villta náttúru til að finna dýr til að mynda. Geta spilarar sjálfir valið þann búnað sem þeir kjósa að nota, ásamt því að spilarar hafa fulla stjórn á öllum stillingum myndavélanna sem þeir nota. 

Verkefni fyrir spilara verða í leiknum, ásamt hæfileikastigum sem hægt er að þjálfa. Verður boðið uppá möguleikann að selja ljósmyndirnar sem teknar eru til að afla tekna til að kaupa betri búnað. 

Tilvalinn fyrir þá sem hafa áhuga á ljósmyndun

Ljósmyndahermirinn verður aðgengilegur á leikjaveitunni Steam, svo auðvelt verður að nálgast hann til spilunar PC tölvur. Útgáfudagur leiksins hefur ekki verið tilkynntur, en framleiðandi segir leikinn í vinnslu.

Margir njóta þess að taka ljósmyndir, en ekki er sjálfsagt að þeir sem njóti þess geti ferðast eða sótt staði sem verðugir eru til ljósmyndunar. Hentar þessi leikur því öllum þeim sem vilja njóta, slaka á og skoða villta náttúru og ná af henni myndum.

Skjáskot úr væntanlegum leik Photography Simulator.
Skjáskot úr væntanlegum leik Photography Simulator. Skjáskot/youtube.com/ThePlayWay
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert