Smíðar skrifborð í anda Stuðlagils

Ljósmynd/Jarod Holley

Jarod Holley, maður frá Ovilla í Texas hefur sérhannað skrifborð í anda Stuðlagils þar sem hann spilar meðal annars tölvuleikina Minecraft, Rocket League, Halo og Escape From Tarkov.

Holley hefur aldrei komið til Íslands en hefur dreymt um það í langan tíma, eða frá því að hann fór að fylgjast með ljósmyndaranum Lurie Belegurschi.

Ljósmynd/Jarod Holley

Hannaði og smíðaði skrifborðið sjálfur

„Ég valdi Stuðlagil af tveimur ástæðum: Ég vissi að ég vildi búa til epoxíð borð sem minnir á fljót. Ég hélt líka að búa til basalt tölvuhillu myndi líta mjög töff út,“ segir Holley í samtali við mbl.is.

Ljósmynd/Jarod Holley

Skrifborðið var búið til úr grunni af Holley. Það eru 57 fætur á borðinu í heildina sem búnir eru til úr 3”x3”x28” viðarbitum úr ösp, skornir í sexhyrnda bita sem síðan voru límdir og skrúfaðir til þess að loka fótasamsetningunni á borðinu. Tölvuhillan er unnin úr sömu aspar bitum sem eru límdir saman af handahófi til þess að líkja betur eftir basalt bitum en gert var ráð fyrir að hafa nógu marga fjögurra tommu bita í kring til þess að tölvuborðið geti setið stöðugt.

Ljósmynd/Jarod Holley

Auðvelt að flytja

„Heildar fótasamsetning borðsins var byggð í þremur hlutum: skúffugrunnurinn, bakveggurinn og hægri veggurinn. Það er hægt að taka allt í sundur til þess að auðvelda flutning,“ segir Holley.

Borðið er samsett af fjórum lögum: 19 mm þykkri viðarplötu, sem er neðst og hugsuð til stuðnings, 6 mm þykkum LED-panel sem lýsir upp þriðja lagið: „fljót“ úr epoxy, og svo er 3 mm þykkt plexígler ofan á til að verja borðið gegn hnjaski. Hliðar borðsins eru svo úr ösp og eru þær ein tomma á breidd.

Ljósmynd/Jarod Holley

Hafði ákveðna hugmynd 

Holley segist ekki hafa haft neinar ákveðnar myndir í huga sem viðmið að gerð borðsins heldur var heildarhugmyndin aðalmálið.

„Stuðlagil var klárlega stærsti innblásturinn á bakvið þetta verkefni, en ég hafði líka mínar eigin hugmyndir um hvernig þetta átti að líta út nákvæmlega í endann,“ segir Holley.

Ljósmynd/Jarod Holley

Stefnir á að smíða fleiri

Þetta er til mikillar undrunar í fyrsta skiptið sem Holley smíðar húsgögn og jafnframt í fyrsta sinn sem hann notast við epoxíð eða LED lýsingu. Hann segir þetta verkefni hafa verið risastórt og á sama tíma það fyrsta af mörgum komandi verkefnum. Hann var um það bil í átta mánuði að smíða þetta.

Hann telur reynsluna vera hvetjandi fyrir hann til þess að hanna og smíða enn fleiri borð sem hann þyrfti síðan að selja á hliðarkantinum en þau eru mörg hver einnig innblásin af Íslandi.

Að loknu viðtali segir Holley á eigin tungumáli: „Hexagons are the Bestagons!“

mbl.is