Fnatic í samstarf með ASOS

Leikmaður Fnatic í auglýsingu um samstarfið.
Leikmaður Fnatic í auglýsingu um samstarfið. Skjáskot/youtube.com/Fnatic

Breska rafíþróttafélagið Fnatic, sem staðsett er í London, hefur gert þriggja ára samning við breska tískufyrirtækið ASOS.

Með samstarfinu verður ASOS opinber samstarfasaðili tískuvarnings Fnatic til næstu þriggja ára. Er um að ræða margra milljóna punda samstarf og mun merki ASOS vera framan á treyjum Fnatic. 

Skarta merki ASOS á heimsmeistaramótinu á Íslandi

Treyjur Fnatic munu skarta ASOS merkinu á heimsmeistaramótinu í League of Legends sem fram fer á Íslandi í næsta mánuði.

Er þetta í fyrsta sinn sem ASOS fer í samstarf með rafíþróttafélagi. Munu leikmenn og efnishöfundar Fnatic koma fram í auglýsingum ASOS á næstunni og virðist samstarfið lofa góðu.

Tengja saman áhugamál ungs fólks

„Tölvuleikjaspilun og tíska eru bæði vinsæl áhugamál hjá ungu fólki, og með auknum vinsældum rafíþrótta erum við spennt fyrir samstarfinu. Yngri kynslóðir vilja sýna stíl sinn bæði í raunverulegum og stafrænum heimi og er það eitthvað sem við erum spennt fyrir að ýta undir,“ er haft eftir ASOS.

Fnatic vonast eftir því að geta mætt þörfum sem flestra spilara þegar kemur að tísku í kjölfar samstarfsins. Vinna fyrirtækin einnig saman að því að hanna stafrænar tískurvörur undir tískumerki ASOS sem hægt verður að nota í ýmsum tölvuleikjum.

mbl.is