Íslendingaserverinn ákveðinn í New World

Grafík/Amazon Games/New World

Fjölspilunarleikurinn New World kom út í gær og eru Íslendingar nú þegar farnir af stað í leiðangur að kanna þennan nýja heim.

Íslendingaserverinn valinn

Íslendingar hafa nú þegar valið sér rás (e.server) til þess að spila á og varð rásin Thule fyrir valinu en Evrópubúar hafa úr 50 rásum að velja. Mikil umferð hefur verið á rásinni því margir leikmenn neyddust til þess að bíða eftir því að komast inn enda er leikurinn í efsta sæti á lista yfir mest selda tölvuleiki í forritinu Steam.

Íslendingar eru áhugasamir um leikinn og margir byrjaðir að spila hann. Streymirinn kazaxu prófaði og sýndi frá leiknum í gær á streymisveitunni Twitch. Nýir leikmenn byrja við strönd Aeternum eftir að skipið þeirra strandaði og öll áhöfnin fórst fyrir utan leikmanninn.

World of Warcraft fengið nýja samkeppni

Óhætt er að segja að spennandi tímar séu framundan hjá Amazon Games hvað varðar útgáfu tölvuleiksins New World þar sem mikil eftirsókn og spenna virðist vera hjá tölvuleikjaspilurum í garð leiksins.

Tölvuleikir á borð við World of Warcraft hafa fengið nýja samkeppni og kemur í ljós á næstu vikum hvernig framþróun og vinsældir leiksins verða til lengri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert