„Hún stalst stundum til að spila leikina mína þegar ég var lítil“

Ljósmynd/Aðsend

Alma Guðrún Guðnadóttir, einnig þekkt sem „Almazing“, er 26 ára Warzone-spilari og ein af fjórum stelpum í Babe Patrol ásamt því að stunda nám í háskólanum og lærir þar sálfræði.

Hefur spilað síðan hún man eftir sér

„Ég hef spilað á Playstation síðan ég man eftir mér og Spyro var leikurinn sem ég man
eftir að hafa spilað fyrst. Mínar fyrstu minningar varðandi töluleikinn er
þegar ég sat með systur minni og mömmu að spila leikinn með þeim. Ég spila hann ennþá stundum í dag,“ segir Alma en hún hefur spilað reglulega tölvuleiki með nokkrum pásum.

Hún minnist þess þegar hún var lítil, í fyrsta bekk í grunnskóla, og sá mömmu sína spila í tölvunni þegar hún kom heim.

„Ég kom heim og mamma var að vinna borð fyrir mig í Spyro sem ég gat ekki klárað, en hún stalst stundum til að spila leikina mína þegar ég var lítil. Mamma er líka í dag einn helsti aðdáandi Babe Patrol og dugleg að hvetja okkur áfram.“

Góð leið fyrir vinkonurnar til að „hittast“ á tíma Covid

„Það var síðan fyrir tveimur árum sem ég fékk PlayStation 4 í jólagjöf og þá kviknaði áhuginn svolítið aftur á að spila tölvuleiki. Svo fór ég að spila daglega þegar við vinkonurnar prófuðum að spila Warzone saman og út frá því byrjuðum við að streyma.“

Alma og hinar stelpurnar í Babe Patrol hafa verið vinkonur í mörg ár en það var ekki fyrr en í fyrstu bylgju Covid í mars 2020 sem þær byrjuðu að spila saman Warzone.

„Okkur fannst þetta ekki bara skemmtilegt heldur var þetta leið til að „hittast“ og spjalla þegar samkomutakmarkanir stóðu sem hæst. Það var í raun þessi félagsskapur sem hélt okkur fyrst og fremst í leiknum. Við erum ekkert bara að spila heldur spjöllum við í leiðinni um daginn og veginn,“ segir Alma en streymishópurinn spilar nú vikulega í beinni fyrir áhorfendur gametíví.

Langar að vera duglegri að prófa nýja leiki

Alma er ekki að keppa eins og er en hún segir að það sé aldrei að vita hvort þær stelpurnar taki þátt í keppni einn daginn. Hún segist ekki fara eftir neinni æfingarútínu heldur reyni hún að spila sem mest þegar hún hefur tíma með stelpunum og nýta þær flest kvöld í að spila saman.

„Ég væri auðvitað til í að verða betri í leikjunum sem ég er að spila, þá sérstaklega Warzone. Annars langar mig að vera duglegri að prófa nýja leiki ásamt því að spila meira á PC-tölvur, ég prófaði það reyndar um daginn og það gekk ekkert sérstaklega vel en æfingin skapar meistarann.“

Stelpur sjást meira í heimi rafíþrótta

Hún segir rafíþróttaheiminn á Íslandi vera að stækka rosalega hratt þessa dagana og verða sífellt meira áberandi. Eins eru stelpur farnar að sjást meira í þessum heimi, sem Alma telur vera mjög góða þróun þó að enn sé langt í land. Hins vegar finnst henni viðhorf margra gagnvart tölvuleikjaspilun mega breytast.

„Þetta er mjög félagslegt fyrir marga, þar á meðal mig. Fólk hefur einhvern veginn þá ímynd að tölvuelikir séu slæmir en í flestum leikjum í dag þarf ákveðna félagsfærni, og fólk er að spjalla við vini sína og jafnvel kynnast nýju fólki. Auðvitað þarf að vera ákveðið jafnvægi í þessu en svo lengi sem þú sinnir þessu helsta í kringum þig eins og námi, vinnu og þess háttar er tölvuleikjaiðkun bara af hinu góða,“ segir Alma.

Hægt er að fylgjast með Ölmu og hinum stelpunum í Babe Patrol á Twitch-síðu Gametíví eða á stöð 2 esports á miðvikudögum klukkan 21.00.

mbl.is