Spjallglugginn tekinn niður

Skjáskot/League of Legends

Spjallglugginn í biðstofu tölvuleiksins League of Legends, þar sem leikmenn bíða eftir því að vera flokkaðir eftir hæfni, er þekktur fyrir að vera mjög eitraður þar sem leikmenn eiga óheilbrigð samskipti. Í ljósi þess hefur Riot Games ákveðið að taka niður þann spjallglugga í nýrri uppfærslu.

Átti að vera skemmtileg afþreying

Spjallglugginn var í fyrstu hugaður sem skemmtileg félagsleg afþreying á milli liða en sífellt fleiri tilkynningar vegna slæmrar framkomu birtust umsjónarmönnum leiksins. Eins og staðan er í dag vega eitruðu samskiptin þyngra heldur en þau góðu og er fyrirtækinu umhugað um leikmennina sína.

Þrátt fyrir að spjallglugginn verði tekinn niður þá geta leikmenn ennþá sent broskarla og látið hetjuna sína dansa, hlægja og þess háttar. Liðsfélagar geta þó enn talað saman í sérstöku liðaspjalli því samskiptin eru undirstaða árangurs.

Ekki hægt að útiloka allt ofbeldi

Riot Games segist gera sér grein fyrir því að andlegt ofbeldi eigi sér stað innan spjallglugga liða líka svo með því að loka fyrir almenna spjallgluggann mun ekki nást að útiloka allt ofbeldi sem er að eiga sér stað.

Hægt er að lesa tilkynninguna á leagueoflegends.com.

mbl.is