Komast Fnatic í úrslitakeppnina í Laugardalshöll?

Margt þarf að gerast svo Fnatic komist í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins.
Margt þarf að gerast svo Fnatic komist í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins. Ljósmynd/Riot Games

Fnatic er eitt þriggja liða frá Evrópu sem keppa á heimsmeistaramótinu í League of Legends sem nú er í gangi í Laugardal. Fnatic hefur gert góða hluti í mörgum tölvuleikjum og eiga sér marga aðdáendur víða í Evrópu, m.a. á Íslandi.

Fnatic ekki enn unnið leik

Þeir sem hafa fylgst með mótinu vita eflaust að Fnatic hefur ekki gengið vel í fyrstu umferð riðlakeppninnar, en þeir sitja á botni síns riðils eftir að hafa tapað öllum leikjum sínum. 

Fnatic urðu fyrir blóðtöku rétt fyrir upphaf riðlakeppninnar er byrjunarliðsmaðurinn Upset hélt heim á leið vegna persónulegra ástæðna, og virðist það hafa haft áhrif á leik liðsins það sem af er móts. 

En er möguleiki fyrir Fnatic að enda meðal efstu tveggja liða í sínum riðli til að eiga séns á að komast áfram í úrslitakeppnina?

Hafa áður komist í úrslit eftir erfiða byrjun

Lið Fnatic hefur áður verið í þessari stöðu, en á heimsmeistaramótinu árið 2017 voru þeir einnig án sigurs eftir fyrri umferð riðlakeppninnar en enduðu í öðru sæti eftir seinni umferðina og komust þannig í úrslitakeppnina. Sú staðreynd segir til um að allt getur gerst, en liðið þarf að gefa í vilji þeir eiga séns á að slíkt hið sama gerist aftur. 

Fnatic eru í C-riðli ásamt Royal Never Give Up, PSG Talon og Hanwha Life Esports. Royal Never Give Up hafa ekki tapað leik, og er líklegt að þeir fari einnig taplausir í gegnum seinni umferð riðlakeppninnar. Seinni umferð C-riðils fer fram næsta sunnudag í Laugardalshöll.

Hvað þarf að gerast svo Fnatic eigi möguleika?

Til að eiga séns á að komast í úrslitakeppnina þarf Fnatic að sigra bæði PSG Talon og Hanwha Life Esports á sunnudaginn. Einnig þarf PSG Talon, sem nú situr í öðru sæti riðlsins, að tapa öllum sínum leikjum sem eftir eru, ásamt því að Hanwha Life Esports þurfa að tapa leik sínum gegn Royal Never Give Up og Fnatic.

Vinni Fnatic leik sinn á móti Royal Never Give Up, þurfa PSG Talon aðeins að tapa tveimur af þremur leikjum sínum til að Fnatic eigi möguleika.

Ef að allir þessir þættir ganga eftir verða þrjú lið jöfn í riðlinum, sem gerir það að verkum að svokallaðir „tiebreaker“ leikir verða spilaðir til að úrskurða hvaða lið kemst í úrslitakeppnina. Gefur það Fnatic möguleikann á því að vinna þá leiki til að tryggja sér annað sætið í riðlinum og fara þannig áfram í úrslitakeppnina.

mbl.is