Stærsti viðburður Norðurlands í rafíþróttum

Grafík/Valur Snær Logason

Stærsti tölvuleikjaviðburður Norðurlands, NorðurLAN, fer fram í Verkmenntaskólanum á Akureyri þann 22.október og stendur yfir í tvo daga, eða fram að 24.október. Fyrirtækin Dominos, Tölvulistinn og Tengir eru styrktaraðilar NorðurLAN.

Langt liðið frá seinasta lani

Viðburðurinn hét áður VMA lanið og hefur verið haldinn um tvisvar sinnum á ári síðustu ár en eftir að heimsfaraldurinn skall á hefur ekki verið hægt að halda viðburðinn og var hann var síðast haldinn um vorið 2020.

„Það er frábært að geta haldið þetta aftur. Við erum mjög þakklátir fyrir það að geta haldið hann eins oft og við gerum. Því þó svona viðburðir eru ekki eins vinsælir og þessi hefðbundu skólaböll þá er hann mjög mikilvægur fyrir þá sem mæta,“ segir umsjónaraðili NorðurLAN í samtali við mbl.is.

Matur og gos í boði fyrir leikmenn

NorðurLAN er samspilunar viðburður þar sem einstaklingar hafa kost á að hittast og spila saman tölvuleiki sem og keppa í þeim en börn undir fimmtán ára þurfa að vera í fylgd með fullorðnum á meðan viðburðinum stendur.

Pizza og gos fylgir með miðakaupum á meðan birgðir endast en miðinn kostar 500 krónur og gildir alla helgina. Einnig er tekið fram að NorðurLAN er áfengis og vímuefnalaus viðburður og ógildir því ölvun miðann.

Umsjónarmenn taka fram í tilkynningu viðburðsins að fylgt verði öllum varúðarráðstöfunum gegn Covid og er því fólk sem finnur fyrir einhverjum einkennum beðið um að halda sig frá viðburðinum.

Hægt er að fylgjast með og lesa nánar um viðburðinn á hér á Facebook.

mbl.is