Seinni umferð hefst í Laugardal

Ríkjandi heimsmeistarar DWG Kia eiga möguleika á að fara taplausir …
Ríkjandi heimsmeistarar DWG Kia eiga möguleika á að fara taplausir í gegnum riðlakeppnina vinni þeir alla leiki sína í dag. Ljósmynd/Riot Games

Seinni umferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í League of Legends, sem nú fer fram í Laugardal, hefst rétt fyrir hádegi í dag. Verður umferð þessi spiluð yfir fjóra daga, en heil umferð í hverjum riðli fyrir sig er spiluð á einum degi.

A-riðill klárast í dag

Sex leikir verða spilaðir á hverjum degi það sem eftir er riðlakeppninnar, þar sem fyrsti leikur hefst klukkan 11:00 og síðasti klukkan 16:00. A-riðill ríður á vaðið og verður sá riðill kláraður í dag. B-riðill verður spilaður á morgun, laugardag, C-riðill á sunnudag og D-riðill á mánudag.

Sigurstranglegasta lið mótsins, DWG Kia er í A-riðli, ásamt FunPlus Phoenix, Rogue og Cloud9. DWG Kia sitja á toppi riðilsins eftir að hafa unnið alla sína leiki, og er ekki búist við að það breytist í dag. FunPlus Phoenix sitja í öðru sæti, Rogue í þriðja sæti og Cloud9 í því fjórða. 

Fyrsti leikur dagsins er leikur FunPlus Phoenix og DWG Kia og hefst klukkan 11:00. 

Leikir dagsins á heimsmeistaramótinu í League of Legends.
Leikir dagsins á heimsmeistaramótinu í League of Legends. Skjáskot/LoLEsports

Útlitið slæmt fyrir Cloud9

Með því að spila vel í dag eiga bæði FunPlus Phoenix og Rogue möguleika á að næla sér í annað sætið, sem kemur þeim áfram í úrslitakeppnina. Útlitið er þó heldur svart fyrir Cloud9 þar sem þeir hafa tapað öllum sínum leikjum til þessa. Allt getur þó gerst og verður áhugavert að fylgjast með leikjum dagsins.

Hægt er að fylgjast með leikjum dagsins á Twitch rás Riot Games, en upplýsingar stöðu riðla, úrslit og næstu leiki er hægt að finna á heimasíðu LoL Esports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert