Þór Akureyri og Rafík jöfn stigum í öðru sæti

Turf Deildin í Rocket League.
Turf Deildin í Rocket League. Grafík/Turf Deildin

Keppni í Turf deildinni í Rocket League hélt áfram í gærkvöldi er fjórar viðureignir voru spilaðar. Deildin er rúmlega hálfnuð en hafa nú þegar öll lið mæst einu sinni í fyrri umferð. 

LAVA esports eru á toppi deildarinnar, en þeir hafa hvorki tapað viðureign né leik það sem af er tímabili. Liðin Þór Akureyri og Rafík deila öðru og þriðja sætinu, en Midnight Bulls og KR fylgja fast á eftir. Þrjú lið hafa dregist aftur úr og sitja í neðstu þremur sætunum, en þau lið eiga lítinn möguleika á að tryggja sér verðlaunasæti vegna slæms gengis. 

Turf deildin fékk í heimsókn gest sem fór yfir tölfræði leikmanna og liða í deildinni í upphafi útsendingar, ásamt því að kíkja við á milli leikja með áhugaverða tölfræði.

Midnight Bulls sterkari

Fyrsta viðureign gærkvöldsins var viðureign oCtai esports og Midnight Bulls. Bæði lið léku í fyrstu deild RLÍS í fyrra, en vegna góðs gengis Midnight Bulls var útlitið ekki gott fyrir oCtai esports. Midnight Bulls unnu þrjá leiki í röð og unnu þar með viðureignina frekar þægilega. 

OCtai sitja enn í neðsta sæti deildarinnar án stiga, en leikur þeirra fer batnandi með hverri vikunnu. Tveir leikir þeirra af þremur á móti Midnight Bulls voru jafnir, en þeir þurfa að sigra að minnsta kosti tvo leiki það sem eftir er til að komast úr fallsæti. Midnight Bulls eru í ágætri stöðu í deildinni en þeir hafa jafn mörg stig og KR og deila liðin því fimmta og sjötta sætinu.

Rafík átti ekki möguleika á móti LAVA

LAVA esports hafa verið óstöðvandi það sem af er tímabili og breyttist það ekki er þeir mættu Rafík í gærkvöldi. LAVA esports unnu þrjá leiki í röð og þar af leiðandi viðureignina 3-0. Tveir leikir af þessum þremur voru jafnir unnu LAVA þá leiki aðeins með eins marks mun. 

Rafík hafa sýnt styrkleika í deildinni og voru á góðri leið með að sitja einir í öðru sæti, en eftir að hafa tapað á móti Þór Akureyri í síðustu viku deila því öðru sætinu með þeim. 

Þór Akureyri tryggja stöðu sína í deildinni

Þór Akureyri og Panda Bois mættust í þriðju viðureign kvöldsins. Panda Bois voru seinir í gang í viðureigninni og nýttu Þór Akureyrir sér það. Þór Akureyri vann þægilegan 3-0 sigur í viðureigninni og sitja því í öðru sæti deildarinnar ásamt Rafík.

Þór Akureyri hafa spilað vel undanfarið og sýndu þeir í gærkvöldi að þeir eiga heima meðal bestu liða landsins. Panda Bois hafa bætt sig það sem af er tímabili og spilað ágætlega en þeir áttu slæman dag í gær, og sitja enn í næstneðsta sæti deildarinnar eftir viðureign gærkvöldsins.

Somnio dragast aftur úr

Síðasta viðureign kvöldsins var viðureign KR og Somnio. KR-ingar mættu tilbúnir á völlinn og unnu þeir viðureignina 3-0, en leikirnir urðu aldrei spennandi og auðveldur sigur KR staðreynd.

KR halda áfram að standa sig vel og sýndu í gærkvöldi að þeir eru ekki auðveldur andstæðingur. Somnio hafa spilað undir væntingum á tímabilinu og eru ekki langt frá fallsæti í deildinni, en þeir eru aðeins tveimur stigum fyrir ofan Panda Bois sem sitja í næstneðsta sæti.

Næstu leikir á morgun

Næstu leikir deildarinnar eru á morgun, þriðjudag. Í fyrstu viðureign mætast KR og Midnight Bulls, en sigurvegari þeirrar viðureignar mun sitja eitt í fjórða sætinu. Mikilvæg viðureign fyrir bæði lið sem vilja blanda sér í baráttuna um efstu þrjú sætin. 

Seinni viðureign þriðjudagsins verður viðureign Panda Bois og Somnio, en sú viðureign verður svokallaður botnslagur þar sem liðin sitja í sjötta og sjöunda sæti deildarinnar. Vinni Panda Bois viðureignina styrkja þeir möguleika sinn á að komast upp fyrir Somnio á stöðutöflunni. Vinni Somnio breikka þeir bilið á milli liðanna, og því ljóst að mikið er undir fyrir bæði lið.

Á morgun mætast KR og Midnight Bulls klukkan 18:40, og Somnio og Panda Bois klukkan 19:15. Allir leikir Turf deildarinnar í Rocket League eru sýndir á Twitch rás RLÍS og Stöð2 esport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert