EDward Gaming áfram í undanúrslit eftir spennandi viðureign

Strákarnir í EDward Gaming sáttir eftir sigur í viðureign dagsins.
Strákarnir í EDward Gaming sáttir eftir sigur í viðureign dagsins. Ljósmynd/Riot Games

Liðin Royal Never Give Up og EDward Gaming mættust í dag í annarri viðureign fjórðungsúrslita heimsmeistaramótsins í League of Legends sem fram fer í Laugardalshöll. Viðureign liðanna hófst í hádeginu og bar EDward Gaming sigur úr býtum.

Er liðið EDward Gaming annað liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum, en liðið T1 var fyrsta liðið til að komast í undanúrslit eftir sigur sinn á Hanwha Life Esports í gær.

Royal Never Give Up unnu mótið MSI sem haldið var í Laugardalshöll fyrr á árinu og voru þeir því taldir líklegir til alls á heimsmeistaramótinu. 

Jöfn viðureign

Viðureign dagsins milli Royal Never Give Up og EDward Gaming var heldur betur spennandi, en best-af-5 viðureignin fór í fimm leiki. Royal Never Give Up vann fyrsta leik viðureignarinnar, en EDward Gaming tóku næstu tvo. Þegar staðan var 2-1 fyrir EDward Gaming þurftu þeir aðeins að vinna einn leik til viðbótar til að tryggja sér sigur í viðureigninni.

Royal Never Give Up voru ekki tilbúnir að ljúka leik strax og unnu þeir fjórða leikinn og komu stöðunni í 2-2. Fimmti og síðasti leikurinn var því hreinlega úrslitaleikur uppá hvaða lið kæmist í undanúrslit. EDward Gaming unnu síðasta leikinn og tryggðu sér sigur í viðureigninni.

Hvaða lið tryggja sér síðustu tvö sætin í undanúrslitum?

EDward Gaming eru því komnir áfram í undanúrslit, en þeir mæta sigurvegara leiks Gen.G Esports og Cloud9 þann 30. október næstkomandi.

Ósigraðir DWG Kia mæta MAD Lions á morgun og verður sigurvegari þeirrar viðureignar þriðja liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum. Á mánudaginn mætast svo Gen.G Esports og Cloud9 og spila uppá síðasta lausa sætið í undanúrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert