Gylfi ekki í Football Manager

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Nýjasta útgáfa tölvuleiksins Football Manager kemur út 23. nóvember. Leikurinn er sem stendur í Beta-útgáfu og geta því þeir sem keyptu leikinn í forsölu spilað hann.

Margir Íslendingar kannast vitaskuld þegar við leikinn en hann gengur út á að stýra heilu fótboltaliði sem þjálfari og kaupa leikmenn, velja taktík og þess háttar til þess að liðinu gangi sem best.

Ekki með í nýju útgáfunni

Athygli hefur vakið að Gylfa Þór Sigurðsson, landsliðsmaður og leikmaður hjá Everton, er ekki að finna í þessari útgáfu leiksins. Er það eflaust vegna þess máls sem upp kom í sumar.

Málið í rannsókn

Gylfi var handtekinn í júlí vegna gruns um að hafa brotið gegn ólögráða einstaklingi, en mál Gylfa er enn til rannsóknar hjá lögreglu í Bretlandi. Nafn hans hefur ekki verið getið í breskum fjölmiðlum af lagalegum ástæðum en hann hefur hvorki spilað með íslenska landsliðinu né Everton síðan málið kom upp.

mbl.is