Sat í fanginu á pabba sínum

Bjarni Þór Guðmundsson, leikmaður Dusty í CS:GO.
Bjarni Þór Guðmundsson, leikmaður Dusty í CS:GO. Ljósmynd/Dusty

Bjarni Þór Guðmundsson, einnig þekktur sem „Bjarni“ er tuttugu ára gamall Counter-Strike: Global Offensive leikmaður og keppir hann fyrir hönd Dusty en Dusty eru með sterkustu liðum landsins í þeim leik.

Á leið til Bretlands að keppa

Bjarni er á leiðinni til Bretlands með Dusty á fimmtudaginn þar sem þeir taka þátt í sinni fyrstu LAN-keppni og er hann mjög spenntur fyrir því.

Hann hefur tekið þátt í þessu móti tvisvar sinnum áður en það var þegar Covid faraldurinn var sem skæðastur og kepptu leikmenn þá að heiman frá sér. Liðið endaði í þriðja sæti í bæði skiptin en segir Bjarni að þeir stefni á fyrsta sætið.

Counter-Strike senan áhorfendavænni

Bjarni spilaði fyrst tölvuleikinn League of Legends en eftir HRinginn árið 2015 ákvað hann að skipta yfir í Counter-Strike.

„Það er bara svo miklu meira líf í CS senunni á Íslandi heldur en í LoL,“ segir Bjarni og telur Counter-Strike vera töluvert áhorfendavænni leikur, fyrir utan það að Counter-Strike er hans uppáhalds leikur- og rafíþrótt.

„Rafíþróttir eru auðvitað það sem ég eyði mest af mínum frítíma í, fyrir utan það þá hef ég gaman að fótbolta og ræktinni,“ segir Bjarni en liðið æfir í fjórar klukkustundir á dag, alla virka daga.

Æfir í fjórar klukkustundir á dag

Lítill frítími er á höndum Bjarna þar sem hann er að sinna skóla og æfingum samhliða því að vinna í nýrri rafíþróttahöll Íslands, Arena og segist hann vera hæstánægður með að geta fylgst með heimsmeistaramótinu í vinnunni sem sýnt er frá í sjónvörpum Arena.

Hann stefnir á að vera „full-time“ atvinnumaður í rafíþróttum og telur sig eiga raunverulegan möguleika á því.

„Ég mun gera allt til þess að það verði úr þessum draum mínum.“

Bjarni segist hafa búist við því að rafíþróttir yrðu eins stórar og þær eru í dag en það hefur komið honum á óvart hversu hraður vöxtur íþróttarinnar er, og jafnframt hefur gengið hraðar fyrir sig en hann hefði getað vonað.

Vildi spila með fólki á sama getustigi

„Ég var að spila með grunnskólavinum mikið, en svo hættu þeir að spila jafn mikið en ég hélt áfram og tók þ.a.l fram úr þeim í getu og vildi þá fara að spila með fólki á mínu getustigi,“ segir Bjarni en hann byrjaði að eigin sögn óvart í rafíþróttum.

Útfrá því að leitast eftir fólki á sama getustigi til þess að spila með fór hann beint í að leita sér að liði til þess að spila með.

Sat í fanginu á pabba þegar hann spilaði

Kynslóð Bjarna ólst upp þar sem tölvur og tölvuleikir voru orðnir stór partur af hversdagslegu lífi og minnist Bjarni fallegrar æskuminningar sinnar.

„Að sitja í fanginu á pabba mínum þegar ég er svona fjögurra ára gamall þegar hann var að spila Age of Empires, það er svona mín fyrsta minning af tölvuleikjum. En svo auðvitað að vinna fyrsta mótið í Counter-Strike, það er uppáhaldsminning mín.“

Að lokum þakkar Bjarni félaginu sínu, Dusty, og öllum styrktaraðilum fyrir þann stuðning sem liðið er að fá.

Hægt er að fylgjast með Bjarna á Twitch rásinni BjarniCS en hann er duglegur að streyma af sér myndböndum að spila.

mbl.is